Jón Óli Ólafsson, eigandi Reiðhjólaverzlunarinnar Berlin, segir að mikil óvissa hafi skapast meðal eigenda reiðhjólaverslana þegar ákveðið var að breyta lögum um virðisaukaskatt á reið- og rafmagnshjólum.
Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að enginn frá yfirvöldum hafi sett sig í samband við eigendur reiðhjólaverslana til að leita ráða vegna ákvörðunarinnar.
Fyrirtækin höfðu því enga hugmynd um það hversu mörg hjól þau ættu að panta inn síðasta sumar og haust fyrir árið 2025 vegna þess að þau vissu ekki hvort eftirspurnin myndi minnka vegna verðhækkunar eða ekki.
„Ég þurfti að hækka verð mín mismikið en hjól sem kostuðu undir 200 þúsund krónur hækkuðu um 48 þúsund. Ef þú keyptir hjól sem kostaði yfir 400 þúsund þá var hámarkshækkunin um 96.000 kr.“
Síðastliðin fjögur ár hafði VSK-ívilnun verið fyrir reið- og rafmagnshjól að ákveðinni upphæð en reiðhjól sem kostuðu undir 200 þúsund krónur báru ekki virðisaukaskatt. Sömuleiðis báru rafmagnshjól sem kostuðu undir 400 þúsund ekki heldur virðisaukaskatt.
Allar VSK-ívilnanir á reið- og rafmagnshjól féllu hins vegar niður um síðustu áramót og bættist því virðisaukaskattur á öll hjól í öllum hjólaverslunum landsins.
Alþingi samþykkti hins vegar að beina því til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að styrkja kaup einstaklinga á burðarrafmagnshjólum í gegnum Orkusjóð. Tilgangurinn með því var að halda áfram að styðja við vistvæna samgöngumáta.
Jón segir að hingað til hafi ekki komið nein skýr mynd á það hvernig þeim styrkjum verði úthlutað fyrir utan skyndilega tilkynningu sem barst frá ráðuneytinu um að ákveðin hjól myndu njóta styrkja.
„Ég talaði við nokkra í hjólabúðum og það var enginn sem spurði okkur eða leitaði álits. Allt í einu sáum við bara tilkynningu sem sagði að allir þeir sem keyptu burðarhjól gætu sótt um styrk hjá Orkusjóði. Þetta þýðir að þeir sem ákveða að kaupa sér burðarhjól til að bera krakkana fá styrk en þeir sem kaupa sér venjulegt hjól með vagn geta ekki fengið styrk.“
Jón telur að stjórnvöld þurfi einfaldlega að taka ákvörðun um það hvort og hvernig reglurnar eigi að vera í stað þess að rugga umræðunni fram og til baka. Innleiðingin sé þá mjög óþægileg fyrir fyrirtækjaeigendur og þar að auki virðist vera mikil hræsni í reglugerðinni.
„Það besta við þetta allt saman er að þeir sem gagnrýndu styrkina og niðurgreiðsluna á rafmagnsbílum fyrir þá efnameiri sem gátu keypt sér fína og flotta rafbíla taka svo upp nákvæmlega eins kerfi fyrir burðarhjólin. Það eru hjól sem geta kostað upp í 1,7 milljónir króna en þeir sem kaupa þau fá þá 200 þúsund króna afslátt. Þetta er nákvæmlega sama kerfi, bara í öðru formi og ég hef heldur ekki séð neina aukningu í fyrirspurnum frá viðskiptavinum um þannig hjól.“