Samdráttur í kínverska hagkerfinu er nú farinn að hafa áhrif á alþjóðlegar lögfræðistofur sem starfa í landinu en stofurnar hafa neyðst til að segja upp starfsfólki í nokkrum af stærstu borgum Kína.

Fyrir aðeins örfáum árum síðan var Kína ein stærsta tekjulind fyrir alþjóðlegar lögfræðistofur en þær hjálpuðu meðal annars til við að skipuleggja hlutabréfasölur og skuldabréf fyrir kínversk fyrirtæki.

Tíðni slíkra samninga hefur hins vegar hrunið í kjölfar samdráttar í hagkerfinu, stefnubreytinga meðal kínverskra stjórnvalda og auknum stjórnmáladeilum milli Kína og Vestrænna ríkja.

Kirkland & Ellis, Dechert, Norton Rose Fulbright og DLA Piper eru meðal þeirra stofa sem hafa nýlega þurft að skera niður. Á undanförnum sex mánuðum hafa einnig átt sér stað hópuppsagnir í Hong Kong og hefur það bitnað sérstaklega á þeim lögfræðingum sem sérhæfa sig í hluta-og skuldabréfum.

Í lok febrúar þurfti lögfræðistofan Mayer Brown að segja upp hóp af lögfræðingum ásamt 20 öðrum starfsmönnum á fjármálasviði sínu. „Þetta er einhver stærsta hópuppsögn á fjármálamarkaðnum sem ég hef nokkurn tíman séð og ég býst við fleiri uppsögnum í kjölfarið,“ segir William Chan, fyrrum lögfræðingur í Hong Kong.

Niðurskurðurinn byggist einnig á mati lögfræðistofa á markaðsaðstæðum í Kína næstu árin. Margar stofur voru með ofmönnuð teymi og er búist við að þörfin verði ekki eins mikil á komandi árum.