Árni Sigurðsson, forstjóri Marels, segir félagið ekki geta veitt frekari upplýsingar að svo stöddu varðandi viljayfirlýsingu John Bean Technologies Corporation (JBT) um yfirtökutilboð í Marel.

Árni Sigurðsson, forstjóri Marels, segir félagið ekki geta veitt frekari upplýsingar að svo stöddu varðandi viljayfirlýsingu John Bean Technologies Corporation (JBT) um yfirtökutilboð í Marel.

„Við munum áfram einblína á að skila góðu verki fyrir viðskiptavini okkar, starfsfólk og hluthafa þar sem ljóst er að niðurstöðu er ekki að vænta alveg á næstunni,“ segir Árni í afkomutilkynningu félagsins sem birt var eftir lokun Kauphallarinnar.

Gildandi viljayfirlýsing JBT, sem tilkynnt var um 19. janúar sl., tiltekur að JBT hyggist leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð á yfirstandandi ársfjórðungi. Gangi allt eftir sé gert ráð fyrir að viðskiptin getið verið frágengin á seinni helmingi þessa árs.

Í kjölfar þess að JBT uppfærði viljayfirlýsinguna í annað sinni ákvað stjórn Marels að ganga til frekari viðræðna við JBT vegna fyrirhugaða yfirtökutilboðsins og opna þar með á formlegt samtal milli félaganna. Unnið er að gagnkvæmri afmarkaðri áreiðanleikakönnunar vegna viðræðnanna.

Í viljayfirlýsingu JBT er fyrirhugað verð 3,60 evrur á hlut. Viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir að hluthafar geti kosið um að fá greitt í reiðufé, með hlutabréfum í sameinuðu félagi eða blöndu, þó þannig að vegið meðaltal fulls endurgjalds JBT fyrir allt hlutafé í Marel verði 65% í formi afhentra hlutabréfa í JBT og um 35% í formi reiðufjár. Það myndi leiða til þess að hluthafar Marels eignist 38% hlut í sameinuðu félagi.

JBT hefur lýst því yfir að það vilji standa vörð um arfleifð Marels og mikilvægi félagsins á Íslandi til framtíðar. Þannig muni sameinað félag bera nafnið JBT Marel Corporation og evrópskar höfuðstöðvar þess verði staðsettar á Íslandi, þó aðal höfuðstöðvar samstæðunnar verði í Chicago.

Þá verði sameinað félag skráð á Nasdaq á Íslandi til viðbótar við núverandi skráningu hlutabréfa JBT á New York Stock Exchange.

Marel greindi þann 24. nóvember fyrst frá því að JBT hefði lagt fram óskuldbindandi viljayfirlýsingu varðandi mögulegt kauptilboð í allt hlutafé Marels. Viljayfirlýsingunni fylgdi óafturkallanleg yfirlýsing samþykki tilboðsins frá Eyri Invest hf., stærsta hluthafa Marels með 24,7% hlut.

Stjórn Marels samþykkti einróma örfáum dögum síðar að hafna áformuðu tilboði JBT og sagði að það væri ekki í þágu hluthafa að taka því.

Þann 13. desember síðastliðinn sendi JBT inn uppfærða viljayfirlýsingu þar sem félagið færði upp fyrirhugað verð í tilboðinu úr 3,15 evrum á hlut í 3,40 evrur. Jafnframt sagðist JBT tilboðið að íhuga skráningu hlutabréfa félagsins í Kauphöllina til viðbótar við fyrri skráningu á NYSE markaðinn.

Sem fyrr segir sendi JBT aðra uppfærða viljayfirlýsingu þann 19. janúar þar sem verðið var hækkað upp í 3,6 evrur og nánari áform voru tilgreind.