John Donahoe, forstjóri Nike, viðurkenndi nú rétt fyrir helgi að það voru mistök að færa fyrirtækið frá heildsöluaðilum eins og Macy‘s og DSW í von um að verða eigin smásali sem einblíndi á verslanir og netverslun.

Nike hefur undanfarin ár reynt að breyta viðskiptaáætlun sinni úr því að vera vörumerki sem seldi strigaskó og föt í verslunum í vörumerki sem sér um meginhluta sölunnar beint til neytenda.

„Við gerum okkur grein fyrir því að á meðan við vorum að færa okkur yfir í stafræna framtíð þá yfirgáfum við heildsöluaðila okkar meira en við ætluðum. Við höfum leiðrétt það og erum að fjárfesta mikið með þeim smásöluaðilum. Þeir hafa allir verið að funda með okkur síðustu daga og eru mjög spenntir fyrir nýsköpunarleiðum,“ sagði John Donahoe.

Upprunalega stefnan átti að gera Nike kleift að græða mun meira á sölu sinni og fá betri innsýn í viðskiptavini sína og kaupvenjur með gagnasöfnun. Donahoe segir að á síðustu fjórum árum hafi Nike þrefaldað netsölu sína með notkun farsíma úr 10% af heildarsölu í 30%.

Stefnubreytingin er hins vegar erfið og getur verið kostnaðarsöm þar sem Nike myndi þurfa að taka á sig alla ábyrgð sem vanalega hefði fallið á heildsöluaðila. Stórverslanir eru einnig gríðarlega mikilvægar fyrir vörumerki og án þeirra þyrftu fyrirtækin að eyða mun meira í markaðssetningu.