Um áramótin tóku gildi ný lög um gjald á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur gildi. Eðli málsins samkvæmt hefur gjaldtakan talsverð áhrif á rekstrarumhverfi verslana sem selja nikótínvörur, sem og innflutningsaðila.

Fjárhæð gjaldsins fer eftir nikótínmagni en fyrir vörur á borð við nikótínpúða nemur gjaldið 8-20 krónum á hvert gramm af vöru. Sem dæmi nemur gjaldið á nikótínpúðadós sem er 15 grömm  allt að 300 krónum, sem leggst á vöruverð við innflutning. Fyrir vökva í einnota rafrettur og til áfyllingar nemur gjaldið 40-60 krónum á hvern millilítra af vöru.

Bjarni Freyr Guðmundsson, rekstrarstjóri og annar eigenda heildverslunarinnar Duflands, sem flytur meðal annars inn nikótínpúða frá merkjunum Velo og Loop, segir að breytingin hafi breytt öllum rekstrarforsendum fyrir árið 2025 með skömmum fyrirvara en lagabreytingin hafi verið samþykkt einungis 44 dögum áður en hún tók gildi.

„Að okkar mati stangast þessi framkvæmd löggjafarvalds á við öll eðlileg viðmið um fyrirsjáanleika og stöðugleika í skattlagningu. Þau fyrirtæki sem standa að innflutningi nikótínvara þurfa að fjármagna innflutningsálögur næsta árs, en sú upphæð er í flestum tilfellum töluvert hærra en eigið fé þeirra. Það fór því óeðlilega mikill tími í að endurskipuleggja rekstrarárið 2025 síðastliðinn desembermánuð,“ segir Bjarni.

„Þessi stutti fyrirvari er einnig þungt högg fyrir verslanir sem sitja ekki á dyggum sjóðum, þar sem kostnaður við vöruinnkaup og bundið fé í birgðahaldi eykst mikið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.