Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra boðar í Samráðsgátt að lagt verði á sérstakt gjald á nikótínvörur, einnota rafrettur og áfyllingarvökva í rafrettur. Útlit er fyrir að verð á nikótínpúðum hækki talsvert ef frumvarpið fer í gegn í núverandi mynd.

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra boðar í Samráðsgátt að lagt verði á sérstakt gjald á nikótínvörur, einnota rafrettur og áfyllingarvökva í rafrettur. Útlit er fyrir að verð á nikótínpúðum hækki talsvert ef frumvarpið fer í gegn í núverandi mynd.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum stendur til að leggja á 30 króna gjald á hvert gramm af heildarþyngd nikótínvara. Fyrir vinsæla nikótínpúða verður gjaldið á bilinu 270-540 krónur á hverja dollu, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

Fjármálaráðuneytið segir að til að setja áætlaða gjaldtöku í samhengi þá myndi 30 króna hækkun á hvert gramm af nikótínvöru hækka staðlaða dós af nikótínpúðum, sem vegur um 15 grömm, um 450 krónur. Til samanburðar sé tóbaksgjald á einn pakka af vindlingum (20 stykki) að fjárhæð 604 krónur.

Verð á staðlaðri dós af nikótínpúðum sem vegur 15 grömm, kostar um 695 krónur á dollu í Svens (ef keyptar eru fimm eða fleiri). Gjaldatakan í dæmi fjármálaráðuneytisins samsvarar því 65% af verði dollunnar.

Dæmi um gjaldtöku á vinsæla nikótínpúða

Nettóþyngd Nikótíngjald (kr.)
Loop mini 9 g 270
Velo 10 g 300
ICE 10 g 300
Shiro 12 g 360
Loop 12,5 g 375
Klint 14 g 420
White Fox 15 g 450
Ace X 15 g 450
Velo/Lyft 16,8 g 504
Skruf 17,3 g 519
ICE XL 18 g 540

Gera ráð fyrir 7,5 milljörðum í ríkiskassann

Þá er lagt til að lagt verði á 60 króna gjald á hvern millilítra af vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar á rafrettum. Umrædd gjald á nikótínvörur og vökva í rafrettur verður helmingi lægra í tollfrjálsum verslunum.

Fjármálaráðuneytið áætlar að tekjur ríkissjóðs af gjaldtöku á nikótínvörur að fjárhæð 30 krónur á hvert gramm gætu numið 4 milljörðum króna á næsta ári. Þá sé gert ráð fyrir að 60 króna gjaldtaka á hvern millilítra af vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar á rafrettum skili tæplega 2 milljörðum króna.

Að auki megi búast við hliðaráhrifum á virðisaukaskatti sem gætu numið 1,5 milljörðum króna.

Áréttað er að matið sé næmt fyrir forsendum um eiginverðteygni eftirspurnar eftir framangreindum vörum, en hún hafi áhrif á skiptingu skattbyrðarinnar milli seljenda og neytenda og það hversu mikið eftirspurn mun dragast saman vegna gjaldtökunnar.

Algengasta neysluform nikótíns

Almennt er vökvi í rafrettur og nikótínpúðar tóbakslausir og falla því utan gjaldtöku laga um gjald af áfengi og tóbaki.

Í greinagerð frumvarpsdraganna segir að með lögum nr. 56/2022 er vörðuðu breytingar á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018, hafi nikótínpúðar verið felldir undir gildissvið þeirra laga og gilda nú að mestu leyti sömu reglur um slíkar vörur og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

Fjármálaráðuneytið segir að það liggi fyrir að notkun á nikótínpúðum hafi aukist hröðum skrefum hér á landi undanfarin ár og mældist dagleg notkun ungra karlmanna í aldurshópnum 18-34 ára 32% á árinu 2023 en áður var hún nær 20% árið 2020.

Á Íslandi hafi notkun á rafrettum einnig verið algengust á meðal ungs fólks þó dagleg notkun hér á landi hafi verið stöðug undanfarin ár, eða um 7% í aldurshópnum 18-34 ára.

Um nokkurt skeið hafi verið kallað eftir að stjórnvöld bregðist við þessari útbreiddu notkun meðal ungs fólks á nikótínvöru sem, þrátt fyrir reglur um aldurstakmörk, sýnileikabann, bann við notkun og sölu á tilteknum stöðum, eykst frá ári til árs. Þessi úrræði hafi þótt duga skammt og að þörf sé á að grípa til frekari aðgerða til að sporna við frekari nýliðun meðal barna og ungmenna.

„Tillögu um gjaldtöku á nikótínvörur, einnota rafrettur og áfyllingarvökva er fyrst og fremst ætlað að hafa áhrif á og sporna við nýliðun og sífellt útbreiddari notkun meðal barna og ungs fólks. Nú er svo komið að nikótínpúðarnir eru algengasta neysluform nikótíns hér á landi en aðeins lítill hluti notenda nikótínpúða er fyrrum reykingafólk sem notar nikótínpúða til þess að hætta tóbaksreykingum,“ segir í greinargerðinni.

„Þá innhalda þessar vörur allajafna mikið magn nikótíns, eru afar ávanabindandi og sýnt þykir að þær hafi neikvæð áhrif á þroska og heilsu ungmenna og barna. Með hækkun gjalds á umræddar vörur standa vonir til að draga úr neyslu hjá yngsta aldurshópnum.“

Í greinargerðinni er einnig að finna samanburð við sambærilega gjaldtöku á Norðurlöndunum.