Japanski tölvuleikjaframleiðandinn Nintendo áformar að hækka grunnlaun starfsmanna félagsins um 10%.

Þetta kom fram í máli Shuntaro Furukawa forseta félagsins í kjölfar birtingu árshlutauppgjörs félagsins.

Félagið ætlar í launahækkanir þrátt fyrir að hafa lækkað hagnaðaráætlanir sínar. Þá seldi Nintendo um fjórðungi færri leikjatölvur á nýliðnum ársfjórðungi samanborið við árið áður.

Launahækkanir Nintendo koma í kjölfar þess að Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, hvatti japönsk fyrirtæki til að borga starfsmönnum sínum hærri laun í ljósi sögulegrar verðbólgu í landinu. Verðbólga mælist nú 4% í Japan og hefur ekki verið hærri í meira en 40 ár.