Japönsku bílaframleiðendurnir Nissan og Honda eru sagðir vera í hugsanlegum samrunaviðræðum til að geta betur keppt á rafbílamarkaðnum, þá sérstaklega í Kína. Fyrirtækin hafa hvorki staðfest né neitað að viðræður séu í gangi.
Nissan og Honda tilkynntu í mars á þessu ári að fyrirtækin tvö væru að kanna einhvers konar stefnumótandi samstarf fyrir rafbílamarkaðinn.
Talið er að viðræðurnar séu á frumstigi og er ekki víst að einhvers konar samkomulag náist. Viðræðurnar koma hins vegar ekki á óvart þar sem margir bílaframleiðendur glíma við vaxandi samkeppni á rafbílamarkaði og mikla uppsveiflu frá Kína.
Samkvæmt japönsku sjónvarpsstöðinni TBS er búist við því að fyrirtækin tvö staðfesti opinberlega í næstu viku að formlegar viðræður séu hafnar.