Japanski bílaframleiðandinn Nissan hefur ákveðið að skipta út framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Makoto Uchida. Ivan Espinosa, skipulagsstjóri Nissan, mun þá taka við Uchida.

Ákvörðunin kemur aðeins nokkrum vikum eftir að hætt var við samrunaáætlun milli Nissan Motor og Honda Motor.

Á síðu WSJ segir að Espinosa muni taka við um næstu mánaðamót en hann gekk til liðs við mexíkósku skrifstofu fyrirtækisins árið 2003. Undanfarin ár hefur hann sérhæft sig í vörustefnu- og skipulagssviði Nissan.

Uchida hafði sagt að hann gæti ekki sætt sig við að Nissan yrði eining af Honda þar sem ekki væri ljóst hversu mikið af sjálfræði fyrirtækisins yrði eftir þegar kæmi að samrunanum.