Í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins (SA) um íslenska vinnumarkaðinn eru lagðar fram níu umbótatillögur á vinnulöggjöf sem myndu að sögn samtakanna stuðla að skilvirkari kjarasamningagerð.

Fyrstu fjórar tillögurnar snúa að valdheimildum ríkissáttasemjara. Í fyrsta lagi leggja samtökin til að hlutverk ríkissáttasemjara verði að stuðla að efnahagslegum stöðugleika með því að tryggja að launastefnu sé fylgt í öllum öðrum kjarasamningum í kjölfar stefnumarkandi kjarasamninga. Í öðru lagi verði skylt að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu. Í þriðja lagi hafi ríkissáttasemjari heimild til að sameina atkvæðagreiðslur og loks hafi hann heimild til að fresta vinnustöðvun.

Næstu tvær tillögur snúa að leiðum til að efla vinnumarkaðslíkanið. Annars vegar leggja samtökin til að ríki og sveitarfélög fái heimild til verkbanns í vinnudeilu og hins vegar að opinberum starfsmönnum verði skylt að leggja fram skýrar kjarakröfur.

Loks setur SA fram þrjár tillögur um breytingar á uppsagnarvernd opinberra starfsmanna. Í fyrsta lagi verði áminningarskylda forstöðumanns stofnunar afnumin. Þá verði ekki lengur skylt að veita andmælarétt við starfslok opinberra starfsmanna. Loks leggja samtökin til að ekki verði lengur skylt að rökstyðja uppsagnir starfsmanna og lausn embættismanna.

Til mikils að vinna

Spurð um hvort hún sé bjartsýn á að stjórnvöld muni hrinda öllum eða hluta þessara tillagna í framkvæmd segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, að nýskeð dæmi um sérhækkun launa ofan á sérréttindi sé dæmi um afleiðingar núverandi vinnulags við kjarasamningagerð. Það sé því til mikils að vinna með því að ráðast í breytingar núna.

„Það er óeðlilegt að opinberi markaðurinn leiði launaþróun í landinu. Ef hlutverk ríkissáttasemjara væri að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og honum bæri að tryggja að launastefnu væri framfylgt í kjölfar stefnumarkandi samninga, þá væri engin að efast um ágæti þeirra samninga sem koma í kjölfarið. Það er því til mikils að vinna með því að gera breytingar núna. Það er tómt mál að tala um efnahagslegan stöðugleika án þess að tryggt sé að launaþróun sé í takt við það sem er innistæða fyrir. Ég held að það átti sig allir á mikilvægi þess núna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.