Sérfræðingar Kviku telja svigrúmið til stýrivaxtalækkana á árinu vera á bilinu 175-200 punktar. Þetta er meira svigrúm en lesa má úr væntingum skuldabréfafjárfesta um þessar mundir. Af þessum sökum telja þeir raunhæft að skuldabréfamarkaðurinn skili á bilinu 8-9% prósenta nafnávöxtun á árinu.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu Kviku á skuldabréfamarkaðnum sem ber titilinn Er búið að kreista safann á skuldabréfamarkaði? Augljóst er af umfjölluninni að sérfræðingar Kviku telja svo ekki vera.
Þrátt fyrir talsverða kröfulækkun á skuldabréfamarkaði frá því í sumar benda sérfræðingar Kviku á að varfærið vaxtalækkunarferli hafi verið verðlag inn á skuldabréfamarkað enn sem komið er. Skuldabréfamarkaðurinn væntir að vextir verði í grennd við 7,25% í árslok 2025 og um 6,75% í árslok 2026. Til samanburðar væntu markaðsaðilar þess að vextir yrðu 6,75% í árslok 2025 og 5,75% í árslok 2026 í síðustu væntingakönnun Seðlabankans.
Af þessu má leiða líkum að líklegt vaxtalækkunarferli Seðlabankans hafi því ekki að fullu verið verðlagt inn á skuldabréfamarkaði.
Álitlegur ávöxtunarauki
Þetta þýðir með öðrum orðum að þessar vaxtalækkanir – það er að segja ef þær ná fram að ganga – hafa ekki nema að hluta verið verðlagðar inn á skuldabréf. Þar af leiðandi gætu verðhækkanir í takt við þessar væntingar „skilað álitlegum ávöxtunarauka“ eins og það er orðað í greiningu Kviku.
Vænta góðrar nafnávöxtunar
Samkvæmt sviðsmyndagreiningu Kviku er raunhæft að skuldabréf skili á bilinu 8-9% nafnávöxtun næsta árið, að því gefnu að skammtímavextir verði komnir undir 6.75% í lok árs í takti við væntingar markaðsaðila.. Ávöxtun gæti farið yfir 12% í lengstu flokkunum í frávikssviðsmynd þar sem vaxtarófið helst niðurhallandi samkvæmt greiningunni.