Sælgætisframleiðandinn Nói-Siríus skilaði 15 milljónum króna í hagnað árið 2022, samanborið við 62 milljóna króna hagnað árið 2021. Minni afkomu má að stærstum hluta rekja til hærri fjármagnskostnaðar en hrein fjármagnsgjöld námu 138 milljónum í fyrra samanborið við 96 milljónir árið áður.

Velta félagsins nam 4,2 milljörðum króna sem er 11,5% aukning frá fyrra ári. Rekstrargjöld Nóa-Siríusar jukust um 13% og námu nærri 3,8 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBTIDA) lækkaði úr 370 milljónum í 360 milljónir á milli ára.

„Áætlanir ársins varðandi magn- og veltu aukningu gengu að mestu eftir þar sem eftirspurn og tekjur jukust. Á sama tíma greiddi félagið niður skuldir og engar nýjar lántökur voru á tímabilinu. Horfur til framtíðar eru almennt góðar og er félagið bjartsýnt á að áætlanir næsta árs gangi eftir.“

Laun og launatengd gjöld jukust um 11% á milli ára og námu 1.167 milljónum króna. Á árinu 2022 störfuðu hjá félaginu að meðaltali 129 starfsmaður í 116 stöðugildum en árið áður var 121 starfsmaður í 113 stöðugildum.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 4,5 milljarða króna í árslok 2022, eigið fé var um 1,9 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var um 41,5%.

Norski matvælarisinn Orkla eignaðist Nóa-Siríus að fullu árið 2020 með kaupum á 80% eignarhlut en Nói-Síríus var metið á ríflega 3 milljarða króna í viðskiptunum. Orkla kom fyrst inn í hluthafahóp Nóa-Siríusar árið 2019 þegar það keypti 20% hlut á rúman hálfan milljarð.

Þóra Gréta Þórisdóttir var ráðin forstjóri Nóa-Siríusar í vor en hún tók við starfinu af Lasse Ruud-Hansen. Þóra hafði áður starfað sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs fyrirtækisins.