Finnska fyrirtækið Nokia tilkynnti í dag um breytingu á vörumerki sínu í fyrsta sinn í nærri 60 ár. Í umfjöllun Bloomberg segir að breytingin sé til þess fallinn að fólk hætti að tengja Nokia, sem framleiðir 5G búnað, við gömlu Nokia símana sem félagið hætti að selja fyrir rúmum áratugi síðan.

„Í hugum flestra erum við enn farsælt farsímavörumerki,“ er haft eftir Pekka Lundmark, forstjóra Nokia.

Farsímar undir nafni Nokia eru enn framleiddir af finnska fyrirtækinu HMD Global, sem tryggði sér sérleyfissamning árið 2014 eftir að Microsoft, sem keypti farsímastarfsemina árið 2014, hætti að framleiða síma undir merkjum Nokia.

Lundmark segir að Nokia horfi til þess að auka markaðshlutdeild sína í þjónustu við símafyrirtæki en fyrirtækið sé nú í stöðu til að auka sækja aukna hlutdeild á markaði án þess að fórna framlegð að hans sögn. Það megi m.a. rekja til þess að nokkur evrópsk ríki hafa sett takmarkanir á sölu kínverska keppinautarins Huawei á ákveðna hluti 5G kerfa.

Nokia horfir einnig til þess að ná fram auknum vexti í sölu á lokuðum 5G netkerfum til fyrirtækja. Þessi tekjustoð var um 8% af heildartekjum Nokia í fyrra en fyrirtækið stefnir á að ná hlutfallinu upp í tveggja stafa tölu með innri vexti og minni yfirtökum.

Nýja vörumerki Nokia.
Gamla Nokia vörumerkið.