Starfsmenn endurskoðunar- og ráðgajafafyrirtækisins Deloitte þurfa að vinna heima næstu daga en fyrirtækið vinnur nú að því að flytja úr Turninum í Kópavogi niður á Dalveg 30.
Áætlanir stóðu til að byrja fyrsta vinnudaginn á Dalveginum á morgun en það gekk ekki eftir og munu starfsmenn hefja störf þar miðvikudaginn 4. október.
Deloitte þarf hins vegar að skila af sér skrifstofurými sínu í Turninum fyrir mánaðamót.
„Það er verið að klára að græja skrifstofuhúsnæðið núna. Það er verið að klára að ganga frá skrifborðum og sitt lítið af hverju. Þetta er ekkert dramatískt,“ segir Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte, léttur.
„Það var vitað að við myndum þurfa að vera einhverja daga heima. Það eru nokkrir dagar sem fólkið okkar þarf að vera heima að vinna eða vinna hjá viðskiptavinum“ segir Þorsteinn.
„Við vorum með leigusamning við Turninn út þennan mánuð og síðan erum við að taka við hinu í næstu viku. Þetta hittist svona nokkurn veginn á nema fyrir utan þessa nokkra daga.“
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins þurfti að ráðast í innréttingavinnu á nýju húsnæðinu en Þorsteinn segir það nú bara smávægilegt og ekki ástæðu þess að flutningar fyrir helgi gangi ekki eftir.
„Það er ein lögn í eldhúsi sem færð um nokkra sentimetra en það var ekki ástæðan,“ segir Þorsteinn.