Noona Labs ehf., sem á og rekur markaðstorgið Noona og rekstrarumsjónarkerfið Noona HQ, hefur fest kaup á öllu hlutafé í hugbúnaðarfyrirtækinu SalesCloud ehf.
Í tilkynningu segir að kaupin hafi verið gerð með blöndu af reiðufé og nýju hlutafé í Noona Labs ehf.
SalesCloud hefur um áraraðir þróað sölu- og greiðslukerfi fyrir veitingastaði, bari, hótel og ýmsa afþreyingu hér á landi og í Svíþjóð.
„Þessi kaup eru stórt stökk fram á við fyrir Noona og ég er virkilega spenntur fyrir möguleikunum sem munu núna opnast. Þetta mun gera bæði félögin mun sterkari og skila sér í öflugra vöruframboði fyrir viðskiptavini okkar og notendur,“ segir Kjartan Þórisson, stofnandi og framkvæmdarstjóri Noona.
SalesCloud er þekktast hér á landi fyrir sölu- og greiðslulausnir en félagið þjónustar meðal annars þekkt fyrirtæki eins og Brauð & Co, Minigarðinn, Hvammsvík, Wok On, Grillmarkaðinn og Íslandshótel.
Jón Hilmar Karlsson, meðstofnandi Noona, mun taka yfir sem framkvæmdastjóri SalesCloud þangað til félögin tvö hafa sameinast að fullu. „Ég get ekki beðið eftir því að sýna viðskiptavinum SalesCloud allt það sem við erum með planað. Það eru bjartir tímar fram undan,“ segir Jón.
Helgi Andri Jónsson, stofnandi SalesCloud og fyrrum framkvæmdastjóri, mun aftur hefja störf hjá félaginu sem tæknilegur ráðgjafi samhliða þessum breytingum eftir að hafa sagt upp störfum sumarið 2023.
„Ég hef lengi fylgst með Noona. Kjartan og Jón Hilmar hafa byggt upp frábært fyrirtæki og ég hlakka til að hjálpa þeim á þessum mikilvægu tímamótum,“ segir Helgi.