Nordic Enterprises Ltd. lauk á dögunum skuldabréfaútboði með breytirétti fyrir 2,2 milljónir Bandaríkjadala, eða um 300 milljónir króna. Tilgangurinn með útboðinu er að styðja við tekjuvöxt félagsins sem áætlað er að verði umtalsverður á næstu misserum.

Nordic Enterprises er móðurfélag Onanoff, sem hefur haslað sér völl sem leiðandi vörumerki í heyrnartólum fyrir börn og skóla. Onanoff er best þekkt fyrir BuddyPhones og StudyPhones vörulínurnar sem hafa hlotið verðlaun og viðurkenningar í gegnum tíðina.

Nýjasta vara fyrirtækisins er StoryPhones. StoryPhones eru fyrstu þráðlausu snjall-heyrnartólin fyrir börn sem geyma og spila efni með því að smella seguldisk í hlið heyrnartólsins. Heyrnartólin bjóða því upp á skjálausa afþreyingu og þ.a.l. engin þörf á að tengja heyrnartólin við annað tæki til þess að spila sögurnar eða efnið.

Stækkuðu útboðið vegna umframeftirspurnar

Centra Fyrirtækjaráðgjöf veitti ráðgjöf í útboðinu og samkvæmt Karli Þorsteins, sem leiddi þá vinnu fyrir hönd Centra, ríkir mikil ánægja með niðurstöðuna. Til marks um það hafi verið ákveðið að stækka útboðið miðað við upphaflega áætlun til að mæta umframeftirspurn meðal fjárfesta. „Markmiðið var fjölga í öflugum hópi aðstandenda félagsins sem gekk eftir, og sýnir það mikla trú á félagið og stjórnendur þess.“

Þetta er ekki fysta skuldabréfaútboð sem Nordic Enterprises hefur ráðist í en fyrir tæplega þremur árum síðan lauk félagið skuldabréfaútboði með valrétti upp 1,9 milljónir dala, sem jafngilti þá um 260 milljónum króna. Ári síðar sótti félagið 4,5 milljóna dala, eða sem nam um 550 milljónum króna á þeim tíma, með hlutafjáraukningu. Rétt eins og nú hafði Centra Fyrirtækjaráðgjöf umsjón með umræddum útboðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild sinni hér.