Af ferðamönnum sem sækja landið eyða Norðmenn eyða mestu á hverjum degi eða rúmlega 58 þúsund krónur að meðaltali. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðideildar Landsbankans um stöðu verslunar og þjónustu á Íslandi en tölurnar í þessum samanburði miða við árin 2018-2019 á verðlagi þess tíma.

Á eftir Norðmönnum koma Kanadamenn sem eyða að meðaltali rúmlega 46 þúsund krónum á dag. Kínverskir ferðamenn eyða minnstu, tæpum 17 þúsund krónum að meðaltali á dag.

Þó Norðmenn eyði mestu dvelja þeir almennt stutt á Íslandi eða að meðaltali í 2,4 skráðar gistinætur á árunum 2017-2019.

Ferðamenn frá Þýskalandi stoppuðu lengst á árunum 2017-2019, að meðaltali 6,2 gistinætur, og eyddu minnstu á hverjum degi að undanskildum Kínverjum, sem dvöldu einnig lengur en meðal ferðamaður eða 4,4 gistinætur.

Bandaríkjamenn hafa verið langfjölmennasta ferðamannaþjóðin síðustu ár. Þar á eftir hafa ýmist komið Bretar eða Þjóðverjar og Danir og Frakkar fylgja fast á eftir.