Peningastefnunefnd norska Seðlabankans hækkaði stýrivexti um 25 punkta í dag og færði þannig meginvexti bankans í 4,5%.
Samkvæmt yfirlýsingu nefndarinnar er verðbólga enn of há heima fyrir og sagði nefndin líklegt að vextir verði í 4,5% í þó nokkurn tíma.
„Stýrivextir eru líklegast á þeim stað sem þarf til að ná verðbólgunni niður á skikkanlegum tíma,“ segir í yfirlýsingu bankans sem Barrons greinir frá.
Óbreyttir vextir út árið 2024
Ida Wolden Bache, seðlabankastjóri Noregs, sagði líklegt að vextir verði óbreyttir út allt næsta ár. Bache viðurkenndi þó að efnahagsumsvif í Noregi væru að dragast saman en verðbólgan væri engu að síður alltof há.
Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 5,8% í Noregi í nóvember.