Stjórnarflokkarnir tveir í Noregi vilja afnema rafmagnstengingar til Danmerkur. Norski Miðflokkurinn vill ganga skrefinu lengra og endursemja einnig um orkutengingar til Bretlands og Þýskalands í ljósi hækkandi orkuverðs í Noregi.

Gífurlegar hækkanir

Í umfjöllun Financial Times segir að lítill vindur í Þýskalandi og á Norðursjó hafi ýtt rafmagnsverði í Suður-Noregi upp í 13,16 norskar krónur, eða um 164,76 íslenskar krónur, á kílóvattstund í dag. Það var hefur ekki verið hærra frá árinu 2009 og er nærri tuttugufalt hærra en á sama tíma í síðustu viku.

„Þetta er algjört skítaástand (e. shit situation),“ er haft eftir Terje Asland, orkumálaráðherra Noregs.

Verkamannaflokkurinn í Noregi segist vilja beita sér fyrir því í aðdraganda þingkosninga sem áformað er að fari fram í september að lokað verði á rafmagnstengingar til Danmerkur, þegar samningar losna árið 2026.

Rafmagnstengingunum er nú kennt um hátt rafmagnsverð í Noregi. Margir landsmenn tala nú fyrir því að Noregur eigi einungis að selja rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum sínum erlendis þegar búið er að tryggja lágt verðlag innanlands.

Vilja draga úr „verðsmiti“ frá Evrópu

Málið er sagt hringja viðvörunarbjöllum meðal Evrópuþjóða sem horfa til raforkukaupa frá Noregi til að stuðla að lægra raforkuverði í álfunni.

„Þetta er lykilstund fyrir tengsl milli ESB og Noregs. Að draga úr orkutengingum til Evrópu verður ekki vinsælt,“ er haft eftir ónefndum sendiherra Evrópuþjóðar í Osló.

Hækkandi rafmagnsverð í Noregi á síðustu misserum hafi leitt til mikillar óánægju meðal almennings. Skoðanakannanir gefa til kynna að núverandi ríkisstjórn muni ekki lifa komandi kosningar af og að næsta ríkisstjórn verði líklega mynduð af miðju og hægriflokum.

Norski Framfaraflokkurinn, sem leiðir í skoðanakönnunum, vill einnig afnema tengingar til Danmerkur og endursemja um tengingar til Bretlands og Þýskalands til að draga úr „verðsmiti“ til Noregs frá Evrópu.

Norskir neytendur eru nokkuð varðir fyrir beinum áhrifum hás raforkuverðs þar sem ríkið niðurgreiðir 90% af rafmagnsverði yfir ákveðnum mörkum. Framfaraflokkurinn vill að ríkið greiði fyrir alla orku yfir lægri mörkum.

Fram kemur að bæði Svíþjóð og Noregur eru með lakar raforkutengingar innanlands sem hafi í för með sér að raforka er oft á tíðum ódýrari fyrir norðan, þar sem stór hluti framleiðslunnar fer fram, heldur en fyrir sunnan þar sem megnið af henni er neytt.