Framúrskarandi árangur Norðurlandanna þegar kemur að nýsköpun hefur vakið heimsathygli undanfarin ár. Löndin sitja afar hátt á nýsköpunarlista Alþjóðahugvitsstofnunarinnar, en þar er Svíþjóð í 2. sæti, Finnland í 3. sæti og Danmörk í 9. sæti. Ísland er í 17. sæti listans og Noregur situr þremur sætum neðar.
Fjöldi svokallaðra einhyrninga, sprotafyrirtækja sem afreka það að vera metin á yfir milljarð Bandaríkjadala, hefur sprottið upp í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku og Noregi undanfarin ár. Þar standa Svíar fremstir í flokki og ber þar helst að nefna tónlistarveituna Spotify, sem er metin á yfir 50 milljarða Bandaríkjadala. Þá hafa þeir einnig stofnað mörg af þekktustu fjártæknifyrirtækjum heims en þekktast þeirra er líklegast Klarna, sem metið var á rúma 45 milljarða Bandaríkjadala í síðustu fjármögnunarlotu. Þá voru fjártæknifyrirtækin Tink og iZettle seld til Visa og Paypal á rúma tvo milljarða dala hvort. Þá eru ónefnd fyrirtæki á borð við Skype og King, framleiðanda Candy Crush tölvuleiksins.
Arash Sangari, verkefnastjóri Startup Sweden, segir að Svíar hafi lengi lagt mikla áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi með ýmsum hætti.
„Þegar kemur að árangri Svíþjóðar tel ég að þar spili inn í samband velferðarkerfisins, með ókeypis menntun til og með háskólastigi, og markvissra aðgerða til að alþýðuvæða aðgengi að tækni. Til dæmis fóru stjórnvöld í átak seint á tíunda áratugnum og gáfu 850.000 tölvur til tæplega fjórðungs sænskra heimila ásamt fjárfestingum í netttengingum. Stofnendur sænskra einhyrninga hafa nefnt slík átaksverkefni sem mikilvæga áfanga þegar þeir voru að byggja upp sín fyrstu verkefni," segir Arash.
Hann segir jafnframt að ákveðin snjóboltaáhrif hafi myndast með miklum árangri sænskra frumkvöðla sem styðja síðan við áframhaldandi nýsköpun.
„Stór hópur stofnenda og fyrstu fjárfesta í sænsku einhyrningunum hefur haldið áfram að fjárfesta í sprotafyrirtækjum og komið af stað næstu bylgju nýsköpunar. Að auki sjáum við sannarlega fyrirtæki stofnuð af frumkvöðlum sem störfuðu áður hjá stærstu tæknifyrirtækjum Svíþjóðar."
Mikil uppsveifla í Danmörku
Danmörk á tvo af stærstu einhyrningum Norðurla
ndanna og geta Íslendingar eignað sér að hluta annan þeirra, Unity Technologies, en Davíð Helgason var einn stofnenda fyrirtækisins og var um tíma forstjóri og stjórnarformaður. Unity er í dag metið á rúma 40 milljarða dala.
Annað árangursríkt fyrirtæki er Zendesk, sem býður upp á forrit sem auðveldar þjónustu og samskipti fyrirtækja við viðskiptavini, en það er metið á rúma 12 milljarða dala. Nýlega festi Zendesk kaup á könnunar- og greiningarfyrirtækinu SurveyMonkey. Bæði Unity og Zendesk fluttu höfuðstöðvar sínar til Bandaríkjanna og eru skráð á markað þar.
Greinin birtist í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .