Tekjur Norðursiglingar, sem rekur m.a. hvalaskoðun á Húsavík og á Hjalteyri, námu 421 milljónum króna á árinu 2021, samanborið við 171 milljón króna á árinu áður. Hagnaður fyrirtækisins eftir skatta nam 150,4 milljónum samanborið við 154 milljóna tap árið áður. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í fréttatilkynningu er jákvæð afkoma Norðursiglingar rakin til sölu á 29% eignarhlut í Sjóböðunum á Húsavík (GeoSea) og „hafði salan verulega jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins á liðnu ári“. Ekki er tekið fram í tilkynningunni hvað fyrirtækið fékk fyrir söluna en ekki er búið að opna fyrir ársreikninginn í fyrirtækjaskrá Skattsins.

„Þá benda bókanir og fyrirspurnir til þess að rekstrarumhverfi Norðursiglingar verði hagfellt á næstunni. Stjórnendur gera ráð fyrir að afkoma fyrirtækisins verið góð á þessu ári og hagnaður verði af rekstrinum.“

Launakostnaður fyrirtækisins jókst og nam 121 milljónum króna, samanborið við 72 milljónir króna árið áður, en stöðugildi voru 19 á ársgrundvelli og 46 starfsmenn á launaskrá yfir sumartímann.

Eignir Norðursiglingar námu rúmlega 1,4 milljörðum króna í árslok 2021 og var eigið fé rúmlega 292 milljónir króna.

Stærsti hluthafi Norðursiglingar er Eldey eignarhaldsfélag hf., en aðrir eigendur fyrirtækisins eru stofnendur félagsins og félög tengd stjórnarformanni þess.