Flugfélagið Norlandair skilaði 101 milljónar króna hagnaði eftir skatta árið 2024, samanborið við 9 milljóna hagnað árið áður.

Tekjur flugfélagsins jukust um 40% milli ára og námu 2.553 milljónum króna í fyrra samanborið við 1.825 milljónir árið áður. Félagið tók við umsjón sjúkraflugs í landinu frá 1. janúar 2024 og jukust tekjur félagsins umtalsvert á árinu vegna þess, að því er segir í ársreikningi félagsins.

„Gert er ráð fyrir að rekstur félagsins á árinu 2025 verði með sambærilegum hætti og hann var á árinu 2024,“ segir í skýrslu stjórnar.

Norlandair sinnir sérhæfðu leiguflugi á Grænlandi auk þess að fljúga innanlands í áætlunarflugi á minni flugvelli. Félagið tók í ársbyrjun 2024 við sjúkraflugi innanlands til þriggja ára.

Rekstrartekjur eftir starfsþáttum

2024 2023
Sjúkraflug 919 0,0
Leiguflug 989 1.155
Áætlunarflug 646 671
2.553 1.825
- í milljónum króna

Eignir félagsins námu 2,3 milljörðum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 1,2 milljarðar króna. Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður til eigenda á árinu 2025.

Samvinnufélagið Kea keypti 21% hlut í Norlandair vorið 2024 og er í dag stærsti hluthafi flugfélagsins með tæplega 44% hlut. Air Greenland er næst stærsti hluthafi Norlandair með 38,6% hlut.

Flugfélag Íslands, dótturfélag Icelandair, á 7,6% hlut í Norlandair og TVG-Zimsen ehf., dótturfélag Eimskips, á 3,8% hlut. Steindór Kristinn Jónsson, sem situr í stjórn flugfélagsins, á 6,1% hlut.

Arnar Friðriksson er framkvæmdastjóri Norlandair.

Lykiltölur / Norlandair ehf.

2024 2023
Rekstrartekjur 2.553 1.825
EBIT 162 50
Afkoma 101 9
Eignir 2.328 2.069
Eigið fé 1.228 1.092
Ársverk 37 25
- í milljónum króna