Verslunin NORR11 Reykjavík við Hverfisgötu 18 hefur fengið nýtt nafn og mun héðan í frá heita Officina. Verslunin, sem fagnar 10 ára afmæli í ár, opnaði fyrst árið 2014 og hefur frá upphafi selt vörur danska húsgagnafyrirtækisins NORR11.

„Með tímanum hefur vöruúrvalið þróast og verslunin orðið að sjálfstæðri hugmynd. Í dag seljum við fjölmörg vandlega valin vörumerki víða að úr heiminum, sem saman mynda einstakan heim sem við köllum Officina,” segir Júlíana Sól Sigurbjörnsdóttir, sem stofnaði NORR11 Reykjavík ásamt eiginmanni sínum Magnúsi Berg Magnússyni.

„Húsgögn frá NORR11 verða áfram í forgrunni hjá okkur, enda eitt mest selda húsgagnamerki landsins. Á næstu misserum munum við kynna fleiri vörumerki og ýmsar nýjungar í vöruúrvali okkar“

Fyrirtækið hefur samhliða nafnabreytingunni opnað nýja vefverslun á heimasíðu verslunarinnar. Hið nýja nafn Officina er latneskt orð yfir vinnustofu.

„Officina er á sinn hátt vinnustofa hugmynda, þar sem verslunin sameinar kosti heimilis og sýningarrýmis í eitt,” segir Júlíana Sól.

Einkenni verslunarinnar er hannað af bresku hönnunarstofunni Lareu & Gonzalez Co., en stofan hefur meðal annars unnið fyrir fyrirtæki á borð við Hoxton Hotels og Jeremiah Brent.

Kynna frekari nýjungar á næstunni

Júlíana Sól og Magnús Berg opnuðu verslunina við Hverfisgötu árið 2014 eftir að hafa flutt heim frá New York. Síðar fluttu þau til Danmerkur þar sem þau störfuðu fyrir danska félagið NORR11; Magnús sem forstjóri og Júlíana Sól yfir markaðsmálum.

Í lok árs 2022 seldu þau og meðfjárfestar þeirra NORR11 til dansks fjárfestis með mikla reynslu úr húsgagnaheiminum.

„Við höfum ekki breytt um kennitölu frá stofnun og hún verður áfram sú sama. Fyrir okkar viðskiptavini breytist ekkert nema nafnið. Við erum spennt að kynna frekari nýjungar á næstu misserum og halda áfram að auka fjölbreytni á markaði fyrir heimilis- og lífstílsvörur hér á landi,” segir Júlíana Sól að lokum.

Nýtt merki verslunarinnar.