Danska orkufyrirtækið Green Hydrogen Systems A/S hefur sótt um greiðslustöðvun þar sem fyrirtækinu tókst ekki að sækja nægt fjármagn til að halda starfseminni gangandi. Greint var frá fjárhagslegum erfiðleikum fyrirtækisins síðasta haust en til stóð að sækja 300 milljónir danskra króna í nýtt hlutafé. Til skoðunar er hvort grundvöllur sé fyrir áframhaldandi starfsemi.
Fyrirtækið var skráð í dönsku kauphöllina árið 2021 en það framleiðir tæki fyrir framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Að því er segir í frétt Bloomberg höfðu hlutabréf fyrirtækisins fallið um 90% frá frumútboði fyrir helgi og féllu þau um 90% til viðbótar eftir tilkynninguna um greiðslustöðvun á mánudag.
Fregnirnar koma í kjölfar frétta af danska sólarorkufyrirtækinu Better Energy, sem neyddist fyrr á árinu til að sækja um greiðslustöðvun fyrir hluta starfseminnar. Áður hafði annað orkufyrirtæki á Norðurlöndunum orðið fyrir höggi en sænski rafhlöðuframleiðandinn Northvolt AB sótti um greiðslustöðvun undir lok síðasta árs og neyddist síðar til að selja stærsta hluta starfseminnar. Bæði fyrirtæki höfðu vaxið hratt og laðað til sín talsvert fjármagn á skömmum tíma.