Laxeldisfyrirtæki í Noregi hafa fengið tilmæli frá yfirvöldum um að undirbúa fiskistofna sína fyrir ágang gaddavírsmarglyttna (l. apolemia uvaria). Eldislaxar í Noregi hafa orðið fyrir árásum af hálfu gaddavírsmarglyttna undanfarna daga sem hafa drepið mikinn fjölda laxa, að því er segir í umfjöllun Bloomberg.
Fiskar sem verða fyrir árás eru ekki líklegir til að ná sér á ný og þarf því að aflífa þá sem lifa af. Þá er jafnvel mælt með að aflífa alla fiskanna í kvínni.
Gaddavírsmarglyttur ollu miklu tjóni í sjókvíaeldi Norðmanna fyrr á þessu ári og neyddust margir framleiðendur til að selja minni flök á lægra verði.
„Það er ekki ásættanlegt að fara inn í annan vetur þar sem næstum helmingur af slátruðum fiski er með opin sár, eins og var í fyrra,“ er haft eftir Bard Skjelstad, yfirmanni norska fiskeldiseftirlitsins.
Hlutabréf Mowi lækkuðu um 2,1% í dag, gengi hlutabréfa Salmar lækkaði um 3% og Grieg Seafood lækkaði um 3,4%.