Norski olíusjóðurinn hefur fest kaup á eftirstandandi 50,1% hlut í átta skrifstofubyggingum í Boston, San Francisco og Washington D.C. fyrir 976,8 milljónir dala, eða sem nemur 136 milljörðum íslenskra króna. Sjóðurinn tilkynnti um þetta í morgun.
Fasteignirnar átta eru samtals tæplega 340 þúsund fermetrar að stærð. Með viðskiptunum eignast olíusjóðurinn 100% eignarhlut í skrifstofubyggingunum.
Fjárfestingarstjóri á sviði óskráðra eigna hjá olíusjóðnum segir að sjóðurinn telji að nú sé hentugur tími til að fjárfesta í skrifstofugeiranum, sem varð fyrir miklum áhrifum vegna Covid-faraldursins. Sjóðurinn sé að sýna það í verki að hann telji að hágæða skrifstofurými á góðum staðsetningum muni áfram skila verðmætum til lengri tíma.
Olíusjóðurinn tilkynnti einnig fyrir helgi að hann hefði náð samkomulagi um kaup á 80% hlut í Trinity Tower skrifstofubyggingunni í La Défense fjármálahverfinu í París fyrir 347,4 milljónir evra, eða sem nemur yfir 50 milljörðum íslenskra króna. Skrifstofubyggingin er um það bil 50 þúsund fermetrar að stærð.