Grosvenor, fasteignafyrirtæki hertogans af Westminster, hefur selt 306 milljóna punda hlut í hinu sögufræga Mayfair-hverfi í London til norska olíusjóðsins. Samsvarar það um 53 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Samkvæmt Financial Times markar salan stærstu aðkomu utanaðkomandi fjárfesta í sögu Mayfair-hverfisins, sem hefur verið undir stjórn Grosvenor-fjölskyldunnar frá 18. öld.
Olíusjóðurinn, sem er stærsti þjóðarsjóður heims með eignir að virði 1,7 billjóna dala (e.trillion), mun eignast 25% hlut í nýju samstarfsverkefni sem metið er á 1,2 milljarða punda.
Grosvenor mun áfram sjá um stýringu og rekstur eignasafnsins sem inniheldur 175 byggingar í kringum Mount Street og Grosvenor Street, en þar er að finna meðal annars hið sögufræga Connaught-hótel.
Stór ákvörðun fyrir Grosvenor
„Þetta er gríðarlega mikilvæg ákvörðun fyrir okkur,“ sagði James Raynor, framkvæmdastjóri fasteignadeildar Grosvenor í Bretlandi. „Við veltum þessu lengi fyrir okkur. En að halda stjórn og halda eignunum í okkar umsjón var afar mikilvægt.“
Fjárfesting norska olíusjóðsins markar fyrstu stóru aðkomu sjóðsins að fasteignamarkaði í London síðan 2018.
Sjóðurinn á þegar hlut í Regent Street í samstarfi við Crown Estate og auk hlut í Pollen Estate í fyrra sem sjóðurinn fjárfesti í árið 2014.
Sjóðurinn hefur einnig fest kaup á Meadowhall-verslunarmiðstöðinni í Sheffield og er meðal stærstu fjárfesta í skráðum fasteignafélögum í London eins og Great Portland Estates.
„Við höfum trú á langtímaverðmætasköpun í West End,“ segir Jayesh Patel, yfirmaður fasteignafjárfestinga sjóðsins í Bretlandi.
Endurskipulagning og langtímasýn
Samstarfsverkefnið er hluti af stærra eignasafni Grosvenor í Bretlandi, sem er metið á 4,8 milljarða punda en fyrirtækið heldur eignarrétti að jörðunum sjálfum.
Þrátt fyrir að eignir í Mayfair og Belgravia séu mjög verðmætar skila þær lægri ávöxtun en áhættusamari verkefni.
Grosvenor hyggst nota hluta af söluandvirðinu til að fjármagna lánastarfsemi fyrir íbúðauppbyggingu um Bretland.
„Þessi nálgun tryggir okkur betra jafnvægi,“ sagði Raynor. Hann bætti við að fyrirtækið hafi kosið að selja hlut í stað þess að taka lán, þar sem Grosvenor væri „mjög langtímamiðað fyrirtæki“ með íhaldssama skuldastefnu.
Grosvenor hyggst nýta fjármagnið til að fjármagna 1,3 milljarða punda þróunarverkefni næsta áratuginn, sem inniheldur endurskipulagningu á Grosvenor Square og 500 milljóna punda þróunarverkefni í kringum South Molton Street, nálægt Bond Street-lestarstöðinni, í samstarfi við japanska fyrirtækið Mitsui Fudosan.