Norski olíusjóðurinn hefur gert samning um kaup á 25% hlut í hinni sögufrægu Covent Garden-eign í miðborg Lundúna fyrir 570 milljónir punda.

Seljandi er fasteignafélagið Shaftesbury Capital, sem heldur áfram að sjá um rekstur svæðisins.

Samkvæmt tilkynningu frá Norges Bank Investment Management (NBIM), sem stýrir sjóðnum, eru kaupin liður í áframhaldandi fjárfestingum í vesturhluta Lundúna.

Þetta eru önnur fasteignakaup sjóðsins í borginni á stuttum tíma, en fyrr á árinu keypti hann 306 milljóna punda hlut í eignum Grosvenor-fasteignafélagsins í Mayfair-hverfinu, sem markaði stærstu aðkomu utanaðkomandi fjárfesta í sögu svæðisins.

„Þessi fjárfesting undirstrikar trú okkar á styrk Lundúna og bætist við aðrar hágæðafjárfestingar okkar í West End. Covent Garden er einn þekktasti áfangastaður heims fyrir verslun, afþreyingu og menningu,“ sagði Jayesh Patel, yfirmaður fasteignafjárfestinga NBIM í Bretlandi.