Norski olíu­sjóðurinn mun kjósa gegn 46 milljarða dala launa­pakka Elon Musk hjá Tesla en launa­pakkinn er nú í höndum hlut­hafa eftir að dóm­stóll í Delaware ó­gilti launa­pakkann í byrjun árs.

Upp­haf­legi launa­pakkinn hljóðaði upp á 55,8 milljarða dali, sem sam­svarar um 7.780 milljörðum króna, en nú­verandi launa­pakki hljóðar upp á 6.414 milljarða á gengi dagsins.

Olíu­sjóðurinn segir í til­kynningu að stærð launa­pakkans sé á­hyggju­efni en sjóðurinn átti um 1% hlut í Tesla í lok árs 2023.

„Þó að við metum þau gríðar­legu verð­mæti sem Musk hefur skapað frá því að launa­pakkinn var sam­þykktur árið 2018 þá höfum við miklar efa­semdir um stærð pakkans og sam­setningu hans,“ segir norski olíu­sjóðurinn í til­kynningu.

Hlut­hafar hafa fram á fimmtu­dag til að greiða at­kvæði um málið en niður­staða dóm­stólsins í Delaware var sú að hin himin­háa þóknun hafi verið sam­þykkt með ó­við­eig­andi hætti í stjórn raf­bíla­fram­leiðandans og hafi verið ó­sann­gjörn gagn­vart hlut­höfum fyrir­tækisins.

Dóm­stóllinn sagði jafn­framt að Musk hefði ó­eðli­leg á­hrif á stjórn Tesla þó að hann ætti að­eins 22% hlut í fé­laginu og stjórnin hafi ekki getað sýnt fram á að hlutirnir sem Musk fékk í laun hefðu verið veittir á sann­gjörnu verði og í sann­gjörnu ferli.