Sænski rafhlöðuframleiðandinn Northvolt, sem hefur verið í greiðslustöðvun í Bandaríkjunum síðan í nóvember, er sagður líklegur til að hefja starfsemi að nýju bráðlega samkvæmt svari Matti Kataja, talsmanni sænska rafhlöðuframleiðandans, við fyrirspurn danska miðilsins Børsen.
Í tölvupósti til Børsen kemur fram að fyrirtækið vonist enn til að komast úr greiðslustöðvun á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en þá munu örlög fyrirtækisins ráðast. Það er eftir nokkrar vikur.
Þá er félagið að vinna að því að sækja fjármögnun fyrir áframhaldandi starfsemi Northvolt.
Á sama tíma hafa hins vegar einnig komið fram ýmsar vafasamar fréttir af Northvolt að undanförnu.
En fjölmiðlar á Norðurlöndunum hafa greint frá óánægðum hlutahöfum, strangari kröfum frá lánardrottnum og sölu á dótturfyrirtækjum fyrir 0 krónur.
Þrátt fyrir þetta allt sem annað hefur Matti Kataja mikla trú á framtíð Northvolt. Að hans sögn er þó enn margt óunnið áður félagið komist úr greiðslusljósi og Northvolt getur risið á ný með nýtt fjármagnsskipulag.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í haust sótti félagið um gjaldþrotavernd samkvæmt 11. kafla gjaldþrotaskiptalaga Bandaríkjanna eftir að viðræður um skammtímafjármögnun sigldu í strand.
Fyrirtækið var um tíma talið helsta von Evrópu um rafhlöðuframleiðslu innan álfunnar en Northvolt sótti yfir fimmtán milljarða dollara í fjármögnun frá félögum á borð við Volkswagen, Goldman Sachs og Siemens.
Þrátt fyrir það hefur Northvolt átt í erfiðleikum með að fullnýta framleiðslugetu verksmiðju sinnar í Skellefteå í Norður-Svíþjóð, sem hefur leitt til fjármagnsvandræða.
Forstjóri og meðstofnandi Northvolt, Peter Carlsson, sagði upp störfum, degi eftir að félagið sótti um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum.