Forstjóri og meðstofnandi sænska rafhlöðuframleiðandans Northvolt, Peter Carlsson, hefur sagt upp störfum, degi eftir að félagið sótti um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum. Reuters greinir frá.

Í ljósi aukinnar áherslu stjórnvalda á orkuskipti hefur fyrirtækið verið talið helsta von Evrópu um rafhlöðuframleiðslu innan álfunnar.

Fyrirtækið hefur aflað yfir fimmtán milljarða dollara í fjármögnun frá félögum á borð við Volkswagen, Goldman Sachs og Siemens. Um 6.600 manns starfa hjá Northvolt í sjö löndum.

Rafhlöðuframleiðandinn hefur hins vegar glímt við talsverð vandamál, bæði í framleiðslu og erfiðlega gekk að sækja aukið fjármagn.

Carlsson tjáði blaðamönnum að fjármögnunarþörf félagsins sé metin á bilinu 1,0-1,2 milljarða Bandaríkjadala.

„Þetta hefur verið tilfinningaríkur dagur fyrir mig persónulega,“ sagði Carlsson sem er fyrrum stjórnandi hjá Tesla. Hann sagðist líta á Northvolt, sem hann stofnaði árið 2016, sem barn sitt.

Northvolt upplýsti í gær að handbært fé félagsins hafi aðeins dugað til að halda úti rekstrinum í tæplega eina viku til viðbótar. Félagið hefur nú tryggt sér 100 milljónir dala í fjármögnun í tengslum við greiðslustöðvunarferlið sem áætlað er að ljúki á fyrsta ársfjórðungi 2025.

Carlsson mun áfram vera félaginu innan handar og mun áfram sitja í stjórn félagsins.