Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík og 3Z ehf. hafa á undanförnum árum þróað aðferðir til leitar nýrra lyfja við miðtaugakerfissjúkdómum. Þeir nota nú gervigreind til að greina á milli þeirra lyfja sem hafa fundist og bæta þau sem verða sett áfram í lyfjaþróunarferlinum.
Starfsemi 3Z, sem sprettur úr grunnrannsóknum við HR, byggir á því að búa til erfðabreytta stofna af sebrafiskum með einkenni miðtaugakerfissjúkdóma. Tölvusjón er notuð til að greina milli atferlis heilbrigðra og stökkbreyttra fiska sem eru svo notaðir í skipulegri lyfjaleit þar sem þúsundir nýrra og þekktra lyfja eru prófuð.
Lyf sem dregur úr sjúkdómstengdu atferli erfðabreyttra fiska er rannsakað nánar sem hugsanlegt nýtt lyf og vinnur 3Z nú með fimm ný lyf og lyfjablöndur við ADHD.
„Bæði kostnaður og áhætta er mikil í lyfjaþróun og á það sérstaklega við um miðtaugakerfislyf, þar sem einungis um 7% þeirra lyfja sem fara í fyrsta lyfjaprófunarfasa enda á markaði. Við þessu hefur verið brugðist með því að framkvæma eins ítarlegar mælingar og hægt er í forklínískum rannsóknum og þá sérstaklega í tilraunadýrum. Við fórum þá leið og eru niðurstöður þær sem við fengum með prófunum í fiskum studdar gögnum frá nagdýrum,“ segir Karl Ægir Karlsson, prófessor við HR og framkvæmdastjóri 3Z.
„Hins vegar er ljóst að lyf sem eru studd af mannerfðafræðigögnum fela í sér mun minni áhættu. Við efndum því til samstarfs við þýsk-bandaríska gervigreindarfyrirtækið Biotx.ai þar sem við hermum virkni lyfjanna allt yfir fasa II. Við þessar hermanir sjáum við einnig hvaða önnur lyf gætu haft hliðstæð áhrif, hvaða öðrum sjúkdómum lyfið gæti tengst og getum þannig spáð fyrir um hvaða lífmerki (e. Biomarkers) við gætum mælt í mönnum í fasa II. Og að lokum, spáð þannig fyrir um líkur á því að lyfin komist yfir fasa II“
Geti fækkað tilraunadýrum til lengri tíma
Karl Ægir segir að til skemmri til litið minni framangreind aðgerð til muna áhættuna í lyfjaþróunarferlinu. Til lengri tíma litið geti þetta haft í för með sér að mun færri tilraunadýr verði notuð í ferlinu og stærri hluti þess muni fremur byggjast á upplýsingatækni.
„3Z er í lykilstöðu til að nýta sér þessa þróun þar sem okkar ferlar eru það hraðir og ódýrir að við getum unnið með hermunum í ítrunarskrefum og það svið sem við vinnum á – miðtaugakerfissjúkdómar og raskanir er það síðasta sem verður að fullu hermt í tölvu. Við höfum því aldrei verið bjartsýnni og fögnum þessari tækni.“