Rekstrarreikningur raftækjaverslunarinnar GameStop hefur ekki litið vel út síðastliðin ár er verslunarkeðjan hefur ekki náð að sækja fram á netinu samhliða því að sölutölur í verslunum dragast saman á hverju ári.
Hlutabréfaverð GameStop hefur þó hækkað um 2.160% síðastliðin fimm ár og hefur raftækjaverslunin verið að nýta sér meðbyrinn til að styrkja efnahagsreikninginn.
Gengi GameStop hefur hækkað um 110% síðastliðinn mánuð eftir að Keith Gill, sem gengur undir nafninu „Roaring Kitty“ á Youtube og skrifar undir nafninu „DeepF—ing¬Value” á Reddit, kom úr samfélagsmiðladvala.
Gill átti stóran þátt í að koma genginu á stjarnfræðilegt flug árið 2021 en honum hefur tekist að gera slíkt hið sama í ár.
Árið 2021 nýtti GameStop sér gengishækkunina til að með því að ráðast í hlutafjáraukningu en raftækjaverslunin seldi 45 milljón hluti fyrir 933 milljónir Bandaríkjadali. GameStop nýtti fjármagnið til að borga niður skuldir en í dag er GameStop með um 50 milljónir dala í vaxtatekjur á árinu og nær engar vaxtaberandi skuldir.
Síðastliðinn föstudag greindi verslunin fjárfestum frá því að önnur hlutafjáraukning væri á döfinni en Gamestop hyggst selja 75 milljón hluti, sem ef miðað er við dagslokagengi mánudagsins eru um 1,9 milljarða dala virði.
Samkvæmt Financial Times hafa fyrirtæki með svokölluð jarmbréf (e. meme stocks) verið að nýta sér hlutafjáraukningar til að sækja fé eftir mikla gengishækkun sem er oft í engu samræmi við hagnað eða tekjur.
Það liggur hins vegar ekki fyrir hvað GameStop ætlar að gera við tvo milljarðana sem það hyggst sækja með því að auka hlutafé sitt en samkvæmt heimildum FT er raftækjaverslunin ekki að íhuga að fara í yfirtökur.

Á föstudaginn birti GameStop árshlutauppgjör en tekjur fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi drógust saman um 29% miðað við árið á undan og námu 882 milljónum dala.
Á sama tíma átti fyrirtækið um 1 milljarð í handbæru fé og verðbréfum. Handbært fé félagsins yrði því um 3 milljarðar bandaríkjadalir eftir hlutafjáraukninguna.
Að sögn FT er forstjóri fyrirtækisins, Ryan Cohen, ekki að hugsa um að sækja fram heldur sé fyrirtækið að vinna í því að draga úr kostnaði og ná sem mestu úr núverandi tekjustofnum.