Páll Pálsson, fasteignasali, segist enn sjá töluverða eftirspurn eftir sumarbústöðum þrátt fyrir að sala þeirra í ár hafi verið minni en á sama tíma og í fyrra. Hann segir að margir kaupendur séu einnig að nota afgangsfé til að kaupa sér sumarbústað eftir að hafa minnkað við sig á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt tölum frá Páli þá seldust 127 sumarbústaðir frá janúar 2023 til 1. júní. Til samanburðar seldust 136 bústaðir á öllu landinu á sama tíma árið 2022.

„Suðurlandið er vinsælasti staðurinn en þar hafa selst 65 bústaðir á þessu ári. Ég seldi einn um daginn og það var gjörsamlega pakkað í sölusýningu og bústaðurinn seldist strax,“ segir Páll.

Hann segir að eftirspurnin sé mest meðal sumarbústaða sem eru ódýrari og flestir sem hafa selst hafa verið undir 100 fermetrar að stærð.

Veltan á kaupum sumarbústaða eftir árum og mánuðum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Af þessum 211 sumarbústöðum sem auglýstir eru til sölu í dag þá eru 148 þeirra undir 100 fermetrum. Langstærsta salan er svo á þeim sem eru undir 35 milljónir króna í verði. Svo er markaðurinn frekar rólegur þegar hann fer frá 35 milljónum og upp í 50 milljónir en breytist aftur þegar þú ert kominn í yfir 60 milljónir.“

Páll segir að sala á sumarbústöðum hafi rokið upp þegar heimsfaraldur skall á og var maí 2021 einn söluhæsti mánuðurinn en þá seldust 80 bústaðir á einum mánuði.

Salan í ár er um 5% minni en hún var í fyrra en Páll segir það einungis samsvara 9 bústöðum og að eftirspurnin sé enn til staðar. Aðstæður í kringum kaupin gætu hins vegar verið að breytast.

„Ég held að þeir sem eru að minnka við sig í bænum séu kannski farin að nota mismuninn til að kaupa sér sumarbústað. Fólk er kannski að skipta út 270 fermetra hús í Seljahverfinu fyrir íbúð í Hlíðunum og kaupir sér svo bara sumarbústað fyrir mismuninn.“