Origo lausnir ehf., sá hluti Origo sem hefur sérhæft sig í sölu og þjónustu á notendabúnaði og tæknilausnum, hefur nú fengið nafnið Ofar. Í tilkynningu segir tilkoma Ofar sé liður í endurskipulagningu sem Origo hefur gengið í gegnum með tilkomu eignarhaldsfélagsins Skyggnis í lok árs 2024.

Hlutverk Ofar er að styðja við fyrirtæki, stofnanir og endursöluaðila með tölvu- og tæknibúnaði frá yfir 150 vörumerkjum á borð við Lenovo, Canon, Bose og Sony.

„Áratuga þekking og reynsla okkar starfsfólks er okkar verðmætasta eign. Með nýju vörumerki og nýjum áherslum skapast tækifæri til að skerpa enn betur á hlutverki félagsins, veita því aukna sérstöðu á markaðnum og tryggja viðskiptavinum betri þjónustu á notendabúnaði og tæknilausnum,“ segir Jón Mikael Jónasson, framkvæmdastjóri Ofar.

Engar breytingar verða gerðar á nafni eða þeirri starfsemi Origo sem snýr að þróun á hugbúnaði, rekstrarþjónustu og innviðum.

Ofar á rætur að rekja til ársins 1992 þegar Skrifstofuvélar og IBM á Íslandi sameinuðust og urðu að Nýherja. Árið 2018 sameinaðist Nýherji félögunum Applicon og TM Software undir nafni Origo.