Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, segir að fjarskiptafélagið sé farið að skoða möguleika til ytri vaxtar, þ.a. með kaupum á fyrirtækjum. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþætti Pyngjunnar þar sem rætt er um uppgjör þriðja ársfjórðungs sem félagið birti á á fimmtudaginn síðasta.
„Við höfum verið að skoða fullt af skemmtilegum tækifærum,“ svaraði Margrét, spurð hvort von sé á nýjum tekjustoðum hjá Nova. Bæði kæmi til greina að fjárfesta í nýjum tekjustoðum innan Nova eða fjárfesta í öðrum fyrirtækjum. Hún sagðist þó ekki geta tjáð sig frekar um þau tækifæri sem félagið er að skoða.
Margrét hefur reglulega mætt í hlaðvarp Pyngjunnar frá því að Nova var skráð í Kauphöllina í júní 2022. Hún hefur til þessa gefið til kynna að félagið ætli sér ekki út fyrir kjarnastarfsemi sína sem er fjarskipti og heyrir því til tíðinda ef félagið er að skoða nýja anga af starfseminni.
Erlendis hefur verið mikil hreyfing í samruna og yfirtökum á fjarskiptamarkaði. Margrét tók fyrir að Nova væri að skoða fjárfestingar í félögum erlendis en sagði að það kæmi sér ekki á óvart ef erlendir aðilar sæju kauptækifæri hér heima í fjarskiptafélögum með innviðum.
Samningur við Mílu studdi við tekjuvöxt
Fjárfestar hafa tekið vel í uppgjör Nova en gengi hlutabréfa félagsins hefur hækkað um meira en 10% frá birtingu uppgjörsins. Hagnaður félagsins hefur aldrei verið meiri á einum fjórðungi, sé leiðrétt fyrir sölu óvirkra fjarskiptainnviða í lok árs 2021.
Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 8,5% milli ára og námu tæplega 2,7 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Margrét sagði í þættinum að ein skýring fyrir góðum tekjuvexti væri fjölgun viðskiptavina í ljósleiðaratengingu í framhaldi af stækkun þjónustusvæðis með samningi við Mílu í upphafi árs.