Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,3% í 6,7 milljarða króna veltu á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í dag. Af henni má rekja um 3,7 milljarða til kaupa sjóðs í stýringu Alfa Framtaks á 25,8% hlut í Origo samhliða yfirtökutilboði í upplýsingatæknifyrirtækið.
Fjarskiptafélagið Nova hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 3,9% í 58 milljóna króna viðskiptum. Gengi Nova stendur nú í 4,26 krónum á hlut eftir 12% hækkun síðustu tvær vikur. Hlutabréfaverð Nova hefur ekki verið hærra síðan um miðjan september síðastliðinn.
Auk Nova, þá hækkuðu hlutabréf Haga, Sjóvá, og Íslandsbanka um meira en 2% í dag. Arion, Reitir og Marel hækkuðu einnig um meira en 1,5%.
Icelandair og Iceland Seafood voru einu félögin á aðalmarkaðnum sem lækkuðu í viðskiptum dagsins. Iceland Seafood tilkynnti í morgun um að slitnað hefði upp úr viðræðum um sölu á breska dótturfélagi sínu.