Fjarskiptafélagið Nova hagnaðist um 539 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári samanborið við 1,5 milljarða króna árið áður. Í afkomutilkynningu Nova segir að leiðrétt fyrir einskiptisliðum vegna sölu óvirkra innviða og sölu hlutdeildarfélags hafi hagnaðurinn lækkað um 38 milljónir á milli ára. Stjórn Nova leggur til að ekki verði greiddur út arður vegna síðasta rekstraárs

Tekjur félagsins námu 12,6 milljörðum króna og jukust um 4,6% á milli ára. Þjónustutekjur félagins jukust um 10% og námu 9,1 milljarði en tekjur af vörusölu drógust saman um 16% og námu 2,2 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam samtals 3,6 milljörðum samanborið við 3,2 milljarða árið áður.

„Áætlanir félagsins höfðu gert ráð fyrir tekjum á bilinu 12.700-12.950 m.kr og EBITDA á bilinu 3.350-3.550 m.kr.,“ segir í tilkynningu Nova til Kauphallarinnar.

„Tekjur ársins enda við neðri mörk áætlunarinnar en EBITDA er fyrir ofan hærri mörk. Sú bætta EBITDA skýrist einna helst af meiri fjölgun viðskiptavina og auknum jákvæðum áhrifum af fjárfestingum í bylgjulengdarkerfi. Tekjur voru lægri en áætlað var vegna samdráttar í vörusölu sem dróst saman um tæpar 400 m.kr. milli ára.“

Eignir Nova voru bókfærðar á 22,8 milljarða króna í árslok 2022. Eigið fé var um 9 milljarðar.