Nova og Hopp hófu nýlega samstarf með það í huga að hvetja fólk til að leggja niður símann, fara út og lifa lífinu. Fyrirtækin hafa í sameiningu búið til þrjár mismunandi vörur sem hafa það markmið að hjálpa þremur mismunandi hópum af fólki.

Renata Blöndal, framkvæmdastjóri upplifunar hjá Nova, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verkefnið tengist að stórum hluta sjálfbærnisstefnu fyrirtækisins.

„Við erum núna á vegferð þar sem við viljum hvetja fólk til að fara út, skemmta sér, leika sér og hitta annað fólk og eitt af því sem við vildum gera var að gera fólki kleift að spara pening og fara á milli staða án þess að þurfa að eiga og reka bíl.“

Nova hefur þá búið til stafrænt klippikort í smáforriti sínu sem viðskiptavinir geta nýtt fyrir rafskútuferðir. Kortið virkar með svipuðum hætti og tilboðskort Nova sem hægt er að nota á veitingastöðum og í kvikmyndahúsum.

„Við vildum skoða lífsstíl unga fólksins og höfum verið mikið í samtali við bæði ungt fólk og fólk á öllum aldri. Þessu hefur verið rosalega vel tekið af háskólanemum en margir mennta- og háskólanemar eiga til dæmis ekki bíl og þessi vara okkar kom út með það í huga.“

Renata segir að auk klippikortsins geti nemar nýtt sér tilboð frá Nova þar sem aðgangur að rafskútum eða Hopp-bíl tengist áskrift. Hún bætir við að þegar meðalferðir á slíkum rafskútum séu skoðaðar þá sé um að ræða rúmlega 50% afslátt.

„Við ákváðum svo líka að bjóða fólki átta þúsund króna inneign í sendiferðabíl, sem Hopp býður einnig upp á, í innflutningsgjöf. Það flytja allir á lífsleiðinni þannig að fólk ætti svo sannarlega að geta nýtt sér það,“ segir Renata.