Fjarskiptafélögin Nova og Sýn undirrituðu í dag samning um samstarf við uppbyggingu og samnýtingu sendastaða vegna 5G uppbyggingar. Samningurinn gildir til ársloka 2028 og kveður á um uppbyggingu og samnýtingu á 200 5G sendum á samningstímanum.
Á grundvelli samningsins mun hvort félag byggja, taka í notkun og reka 100 sendastaði með 5G þjónustu, að meðtöldum þeim sendum sem þegar hafa verið byggðir.
Áætlað er að uppbygging allra senda verði lokið í árslok 2024 og er hvor aðili skuldbundinn til að leyfa gagnaðila að samnýta þá senda sem falla undir samninginn hið minnsta út árið 2028 að því er kemur fram í tilkynningu félaganna til Kauphallarinnar kemur.
„Samningurinn kveður á um að hvorum aðila sé gert kleift að nýta senda hins aðilans fyrir 5G þjónustu. Þá er ekki gert ráð fyrir fjárhagslegu uppgjöri milli félaganna þar sem jöfn skipting kostnaðar og samnýtingar er fyrirhuguð. Þá er hvorum aðila um sig heimilt að selja í heildsölu aðgang til þriðja aðila að sendum.“
Nova og Sýn hafa þegar átt í samstarfi frá árinu 2016 um sameiginlega uppbyggingu og rekstur 2G, 3G og 4G þjónustu.
„Markmið aðila með gerð samningsins er að auka hagkvæmni og skilvirkni við uppbyggingu og rekstur 5G þjónustu og innviða, draga úr umhverfisáhrifum slíkrar uppbyggingar og tryggja enn betur fjarskiptaöryggi og þjónustu við viðskiptavini.“