Í nóvember í fyrra samþykkti Samkeppniseftirlitið sölu Nova og Sýnar á óvirkum fjarskiptainnviðum til ITP ehf. sem er endanlega í eigu bandaríska sjóðstýringafyrirtækisins Digital Bridge. Þann 14. desember var gengið frá sölunni og seldi Nova óvirka fjarskiptainnviði fyrir tæpa 5,3 milljarða króna gegn þeim skilmála að endurleigja eignirnar aftur til næstu 40 ára.
Tveimur dögum síðar var hlutafé félagsins hækkað um 557 milljónir, þegar lykilstarfsmenn félagsins keyptu 11% hlut í félaginu með nýtingu kauprétta sem höfðu verið veittir 2017. Samkvæmt ársreikningi félagsins greiddu starfsmennirnir 228 milljónir króna fyrir nýtingu kaupréttanna, samkvæmt gangverði á lokunardegi.
Á meðal þeirra starfsmanna sem nýttu kauprétti var Margrét B. Tryggvadóttir, forstjóri Nova. Hún keypti 4,27% í Platínum Nova, sem nú heitir Nova klúbburinn - 3,27% í gegnum félagið M&M Partners og 1% í eigin nafni. Sé gengið út frá því að kaupréttir lykilstarfsmannanna hafi verið sambærilegir má ætla að Margrét hafi greitt 88,5 milljónir króna fyrir nýtingu sinna rétta. Degi síðar lækkaði Platínum Nova hlutafé sitt með greiðslu upp á 6,2 milljarða til hluthafa sinna og hefur hlutdeild Margrétar í þeirri greiðslu því numið tæpum 265 milljónum.
Í heild má ætla að hlutdeild lykilstarfsmanna í greiðslunni til hluthafa hafi verið um 682 milljónir króna. Lykilstarfsmenn Nova ávöxtuðu því fjárfestingu sína um 200% á einum sólarhring, eða fjórum árum frá því kaupréttarsamningarnir voru gerðir.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.