Fjárfestingarfélagið Novo Holdings, sem á ráðandi hlut í Novo Nordisk, hefur gengið frá kaupum á Benchmark Genetics frá móðurfélaginu Benchmark Holdings plc.
Benchmark Genetics, sem á m.a. Benchmark Genetics Iceland sem hét áður Stofnfiskur, er nú formlega orðið hluti af fjárfestingasafni Novo Holdings.
Kaupverðið nemur allt að 260 milljónum punda, eða tæplega 45 milljörðum króna, en þar af eru 230 milljónir punda greiddar við afhendingu, auk mögulegra viðbótargreiðslna upp að 30 milljónum punda sem ráðast af árangri fyrirtækisins. Samningurinn var formlega kláraður þann 31. mars 2025.
„Alþjóðlegur fiskeldisiðnaður krefst stöðugra og fjárhagslega traustra erfðafyrirtækja sem fjárfesta í innviðum og nýsköpun. Með kaupum Novo Holdings á Benchmark Genetics styrkist grunnurinn að langtímalausnum fyrir erfðatækni í fiskeldi,“ segir í tilkynningu Benchmark.
„Þar sem aðeins fáir stórir aðilar starfa á þessu sviði mun skuldbinding Novo Holdings tryggja áframhaldandi þróun, vöxt og getu greinarinnar til að takast á við framtíðaráskoranir í sjálfbærri framleiðslu sjávarafurða.“
Fram kemur að höfuðstöðvar samstæðunnar hafi verið fluttar til Bergen í Noregi. Félagið, sem var skráð í kauphöllina í London, en er sem fyrr segir nú komið í einkaeigu Novo Holdings.
Styrki stöðu Benchmark Genetics á Íslandi
Starfsemi Benchmark Genetics felst í kynbótum á laxi og framleiðslu hrogna og er félagið með starfsstöðvar á Íslandi, í Noregi og Síle en laxahrogn eru seld til fjölda landa um allan heim.
Félagið segir að yfirtakan hafi jákvæð áhrif á starfsemina á Íslandi, þar sem Benchmark Genetics Iceland hefur vaxið hratt á undanförnum árum.
„Þessi yfirtaka styrkir stöðu Benchmark Genetics á Íslandi enn frekar og opnar ný tækifæri til vaxtar og þróunar,“ segir Benedikt Hálfdanarson, framkvæmdastjóri Benchmark Genetics á Íslandi.
„Við höfum vaxið hratt á síðustu árum og erum nú með nærri 90 starfsmenn hér á landi sem sinna mikilvægu og sérhæfðu hlutverki í erfðatæknistarfi okkar. Með öflugu baklandi Novo Holdings getum við haldið áfram að byggja upp starfsemina á Íslandi, fjárfesta í innviðum, efla nýsköpun og tryggja áfram gott starfsumhverfi og öfluga framtíð fyrir viðskiptavini okkar.“

Framtíðarsýn um vöxt og þróun
Í tilkynningunni segir að með Novo Holdings sem nýjan eiganda stefni Benchmark Genetics á að styrkja stöðu sína sem leiðandi aðili á heimsvísu. Markmiðið sé að gera fiskeldisiðnaðinum kleift að nýta þá miklu möguleika sem felast í erfðabótum og tæknilausnum til að bæta afköst, sjálfbærni og velferð í framleiðslu sjávarafurða.
Til að ná þessum markmiðum muni Benchmark Genetics beina sjónum sínum að nokkrum lykiláherslum:
- Efling og fínstilling á kynbótaáætlunum fyrir lax og rækju, með það að markmiði að bæta afurðagæði og árangur í framleiðslu.
- Sókn inn á nýja markaði og til fleiri tegunda, þar sem þekking og tækni fyrirtækisins er nýtt til að auka matvælaframleiðslu á heimsvísu.
- Markvissar fjárfestingar í framleiðsluaðstöðu og kynbótastöðvum víðs vegar um heiminn – þar á meðal í Noregi, á Íslandi og í Chile – til að efla smitvarnir, afhendingaöryggi og auka framleiðslugetu.
- Uppbygging og styrking stefnumótandi samstarfs við lykilviðskiptavini, birgja og rannsóknarstofnanir.
- Aukið framboð á erfðagreininga- og arfgerðargreiningaþjónustu til að hámarka áhrif erfðabóta í fjölbreyttum tegundum og á fleiri mörkuðum.
- Áhersla á vísindi og nýsköpun á sviði erfðamengisgreininga, svipgerðagreininga og æxlunartækni – þar á meðal mögulegar framtíðarlausnir tengdar genabreytingum.

Novo Holdings rekur fjölbreytt fjárfestingasafn með yfir 150 fyrirtækjum. Kaupin á Benchmark Genetics eru sögð í takt við stefnu félagsins um að styðja við heilbrigði jarðar og stuðla að sjálfbærri matvælaframleiðslu.
Þessi viðskipti koma í kjölfar nýlegrar fjárfestingar Novo Holdings í norska fyrirtækinu Stingray Marine Solutions, sem einnig gegnir lykilhlutverki í nýsköpun innan fiskeldisgeirans.
„Við trúum því að erfðatækni geti umbreytt fiskeldi, bætt velferð dýranna og gert matvælaframleiðslu sjálfbærari,“ segir Geir Olav Melingen, forstjóri Benchmark Genetics.
„Með Novo Holdings sem nýjum eiganda erum við í sterkari stöðu til að framfylgja hlutverki okkar – að þróa afkastamiklar og sjálfbærar erfðalausnir sem skapa raunverulegt virði fyrir fiskeldisframleiðendur um allan heim og stuðla að heilnæmari matvælum fyrir neytendur.“

Novo Holdings er í 100% eigu Novo Nordisk Foundation og er ráðandi hluthafi í Novo Nordisk A/S og Novonesis A/S (áður Novozymes). Félagið fjárfestir í fjölbreyttum eignaflokkum, þar á meðal hlutabréfum, skuldabréfum, fasteignum, innviðum og einkafjárfestingum – auk þess að vera leiðandi fjárfestir í lífvísindum á heimsvísu. Í lok árs 2023 námu heildareignir Novo Holdings 149 milljörðum evra.