Danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk varð verðmætasta fyrirtæki Evrópu í síðasta mánuði. Lyfjafyrirtækið tók titilinn af frönsku lúxussamsteypunni LVMH sem varð verðmætasta fyrirtæki Evrópu þegar það tók fram úr Nestlé árið 2021.
Öll þrjú fyrirtækin eru risar á evrópskum markaði en Novo Nordisk er nú komið í algjöran sérflokk. Lyfjafyrirtækið er nú metið á 59 þúsund milljarða íslenskra króna og kostar einn hlutur 13.479 krónur miðað við dagslokagengið í gær.
Að mati The Wall Street Journal getur verðmatið hins vegar verið vandamál þar sem félagið er skráð í Kauphöllina í Kaupmannahöfn.
Heildarverðmat allra fyrirtækjanna í dönsku úrvalsvísitölunnar OMXC 25 er 750 milljarðar dalir en verðmat Novo Nordisk eitt og sér er 430 milljarðar.
Danskir sjóðstjórar neyddir til að selja
Að mati WSJ býr þetta til hausverk fyrir fjárfesta en fáir fjárfestingasjóðir vilja sjaldnast vera með en 10% af eignasafni sínu í einu hlutabréfi, jafnvel þótt slíkt sé leyfilegt.
Evrópskt regluverk aftur á móti bannar verðbréfasjóðum að eiga meira en 10% í einu félagi.
Erlendir fjárfestar græða hins egar á þessu þar semað danskir sjóðstjórar hafa verið tilneyddir til að selja mikið af bréfum í Novo Nordisk. Í hvert skipti sem virði þeirra hækkar og verður meira en 10% af heildareignum sjóðsins þurfa þeir að selja.
Þess vegna kemur Eli Lilly, helsti keppinautur Novo Nordisk á megrunarlyfsmarkaðnum, betur út í V/H samanburði sem ber saman markaðsverðmæti fyrirtækis (V) og hagnað (H).
Eli Lilly er skráð á markað í Kauphöllinni í New York þar sem Apple er verðmætasta fyrirtækið en virði Apple er þó aðeins 7% af S&P 500 vísitölunni.
Jesper Neergaard Poll, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá Danske Bank, segir þó í samtali við The Wall Street Journal að Eli Lilly sé einnig með Alzheimer-lyf á markaði sem er að skila miklum hagnaði en ekki Novo Nordisk svo dæmi séu tekin.
Þá sé bandaríski markaðurinn duglegri að blása upp verðmæti fyrirtækja í fjölmiðlum á meðan evrópskir miðlar séu ögn hófsamari.