Danski lyfjarisinn Novo Nordisk hagnaðist um 20,5 milljarða danskra króna, eða sem nemur 415 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi. Greinendur höfðu gert ráð fyrir örlítið meiri hagnaði upp á 21,3 milljarða danskra króna.
Samanlagt hagnaðist félagið um 45,5 milljarða danskra króna á fyrstu sex mánuðum ársins, um 920 milljarða íslenskra króna, sem er 16% aukning á milli ára.
Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri.
Í nýrri afkomuspá Novo Nordisk fyrir árið 2024 er reiknað með að rekstrarhagnaður muni aukast um 20-28% frá fyrra ári, sem er örlítið minni vöxtur en fyrri spár reiknuðu með, þar sem spáð var að rekstrarhagnaður myndi aukast um 22-30%.
Ástæðan er að sala á þyngdarstjórnunarlyfinu Wegovy stóðst ekki væntingar á öðrum ársfjórðungi. Sölutekjur af Wegovy námu 11,7 milljörðum danskra króna á tímabilinu en reiknað var með að tekjur myndu nema 13,7 milljörðum danskra króna.
Sykursýkislyfið Ozempic seldist fyrir um 28,9 milljarða danskra króna á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 584 milljörðum íslenskra króna. Jókst salan um 30% milli ára.
Sölutekjur félagsins reyndust einnig minni á fjórðungnum en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Þær jukust um 25% á milli ára, námu 68 milljörðum danskra króna, en greinendur höfðu spáð 26,7% söluaukningu milli ára.
Aftur á móti er reiknað með auknum tekjuvexti hjá Novo Nordisk fyrir árið í heild og muni aukast um 22-28%. Fyrri spár reiknuðu með 19-27% vexti.
Gengi Novo lækkaði um 4,6% við opnun markaða en hefur síðan þá hækkað aðeins með deginum.
Lars Fruergaard Jørgensen, forstjóri Novo Nordisk, segist í tilkynningu vera viss um að félagið geti mætt eftirspurn, sem er í hæstu hæðum. Félagið hefur eytt milljörðum dala á síðustu árum í að auka framleiðsluna á Wegovy og hefur komið mun fleiri skömmtum á markað í Bandaríkjunum en áður til að bregðast við eftirspurninni.
Novo Nordisk hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum vegna sölu á sykursýkislyfinu Ozempic og þyngdarstjórnunarlyfinu Wegovy. Félagið stendur þó frammi fyrir vaxandi samkeppni á markaðnum frá fyrirtækjum eins og Eli Lilly sem framleiðir sambærileg lyf, að því er kemur fram í grein Financial Times.
Það varð verðmætasta fyrirtæki Evrópu undir árslok 2023 og tilkynnti fyrr á árinu um kaup á þýska líftæknifyrirtækinu Cardior Pharmaceuticals. Kaupverðið var milljarður evra, eða sem nemur rúmlega 150 milljörðum króna.