Novo Holdings, móður­fé­lag Novo Nor­disk, réðst í stærstu yfir­töku í sögu Dan­merkur í gær er fé­lagið keypti banda­ríska lyfjarisann Cata­lent á 114 milljarða danskra króna.

Kaup­verðið sam­svarar um 2.262 milljörðum ís­lenskra króna en fé­lagið mun greiða fyrir kaupin að fullu með reiðu­fé.

Novo Holdings mun selja þrjár fram­leiðslu­stöðvar Cata­lent til Novo Nor­disk en danski lyfja­risinn er að reyna anna eftir­spurn vestan­hafs eftir þyngdar­stjórnunar­lyfinu Wegovy með aukinni fram­leiðslu.

Fjárhagslegir yfirburðir í Danmörku

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen er stefnt að því að ljúka yfir­tökunni að fullu fyrir árs­lok en Novo Holdings hefur verið að nýta hagnað sinn í meira mæli til að ráðast í yfir­töku síðast­liðin ár.

Novo Holdings og Novo Nor­disk komu að fimm af sex­tán stærstu yfir­tökum í Dan­mörku í fyrra er fé­lögin tvo keyptu KBP Biosciences, Ellab, Inver­sago Pharma, Embark Biot­ech Para­tek Pharmaceuti­cals fyrir sam­tals 29,9 milljarða danskra króna eða um 593 milljörðum ís­lenskra króna.

„Það er alveg ein­stakt að vera með leik­mann á markaði með jafn mikla yfir­burði,“ segir Lars Ingemars­son, fram­kvæmda­stjóri í sam­runum og yfir­tökum fyrir Norður­löndin hjá Citi bank.

„Undan­tekning fremur en megin­reglan“

Eigna­safn Novo Holdings var metið á yfir 800 milljarða danskra króna í fyrra sem sam­svarar um 15,8 þúsund milljörðum ís­lenskra króna.

Ka­sim Kutay, for­stjóri Novo Holdings, segir í sam­tali við Børsen að hann búist þó við því að verði ekki margar 100 milljarða danskra króna yfir­tökur til við­bótar.

„Þetta er undan­tekningin fremur en megin­reglan. En ég meina maður veit aldrei og við erum alveg fær til þess þannig ég ætla ekki að úti­loka neitt,“ segir Kutay.

„En þetta er ekki eitt­hvað sem fólk ætti að vera búast við. Það má búast við meira af sam­bæri­legum fjár­festingum og við höfum verið í síðast­liðin ár nema kannski ör­lítið stærri,“ segir Kutay.