Novo Holdings, móðurfélag Novo Nordisk, réðst í stærstu yfirtöku í sögu Danmerkur í gær er félagið keypti bandaríska lyfjarisann Catalent á 114 milljarða danskra króna.
Kaupverðið samsvarar um 2.262 milljörðum íslenskra króna en félagið mun greiða fyrir kaupin að fullu með reiðufé.
Novo Holdings mun selja þrjár framleiðslustöðvar Catalent til Novo Nordisk en danski lyfjarisinn er að reyna anna eftirspurn vestanhafs eftir þyngdarstjórnunarlyfinu Wegovy með aukinni framleiðslu.
Fjárhagslegir yfirburðir í Danmörku
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen er stefnt að því að ljúka yfirtökunni að fullu fyrir árslok en Novo Holdings hefur verið að nýta hagnað sinn í meira mæli til að ráðast í yfirtöku síðastliðin ár.
Novo Holdings og Novo Nordisk komu að fimm af sextán stærstu yfirtökum í Danmörku í fyrra er félögin tvo keyptu KBP Biosciences, Ellab, Inversago Pharma, Embark Biotech Paratek Pharmaceuticals fyrir samtals 29,9 milljarða danskra króna eða um 593 milljörðum íslenskra króna.
„Það er alveg einstakt að vera með leikmann á markaði með jafn mikla yfirburði,“ segir Lars Ingemarsson, framkvæmdastjóri í samrunum og yfirtökum fyrir Norðurlöndin hjá Citi bank.
„Undantekning fremur en meginreglan“
Eignasafn Novo Holdings var metið á yfir 800 milljarða danskra króna í fyrra sem samsvarar um 15,8 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Kasim Kutay, forstjóri Novo Holdings, segir í samtali við Børsen að hann búist þó við því að verði ekki margar 100 milljarða danskra króna yfirtökur til viðbótar.
„Þetta er undantekningin fremur en meginreglan. En ég meina maður veit aldrei og við erum alveg fær til þess þannig ég ætla ekki að útiloka neitt,“ segir Kutay.
„En þetta er ekki eitthvað sem fólk ætti að vera búast við. Það má búast við meira af sambærilegum fjárfestingum og við höfum verið í síðastliðin ár nema kannski örlítið stærri,“ segir Kutay.