Hátæknifyrirtækið Nox Medical, sem framleiðir lækningatæki til að greina svefnsjúkdóma, hefur rúmlega þrefaldað tekjur sínar í Bandaríkjunum á aðeins þremur árum, eða frá því að félagið hóf sjálft að sjá um dreifningu á vörum sínum þar. Tekjur félagsins í Bandaríkjunum voru um 4 milljónir dala árið 2019 en voru komnar upp í tæpar 15 milljónir dala í fyrra. Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá Nox Medical, segir þá stóru ákvörðun að hefja að dreifa vörunum upp á eigin spýtur hafi reynst félaginu mikið gæfuspor.
„Í október 2019 ákváðum við að stökkva út í djúpu laugina og tókum sjálf yfir dreifingu á vörum okkar í Bandaríkjunum. Við höfðum áður verið með dreifingaraðila á þessum markaði í um áratug og átt í góðu samstarfi við hann. Aftur á móti breyttust aðstæður dreifingaraðilans um þetta leyti og við töldum of mikla áhættu að vera bundin við einn dreifingaraðila á þessum stærsta svefnmarkaði heims. Við fórum því á fullt að ráða fólk, byggja upp viðskiptasambönd og koma upp starfsemi í Bandaríkjunum. Við áttuðum okkur á að þetta væri nokkuð áhættusamt en jafnframt að það væri eftir miklu að slægjast.“
Á sama tíma hafi verið ákveðið að Nox Medical og bandaríska félagið FusionHealth myndu renna saman í eina samsteypu; Nox Health. „Með þessu náðum við fram betri áhættudreifingu, settum fram skýra stefnu um að verða leiðandi á svefnmarkaðinum, auk þess sem við fengum inn fjárfesti, framtakssjóð á vegum Alfa Framtaks, til að styðja við þessa vegferð. Á þessum tíma voru tekjur Nox Medical í Bandaríkjunum um 4 milljónir dala en við töldum okkur með þessu geta tvöfaldað tekjur okkar á markaðnum á þremur árum,“ útskýrir Ingvar.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.