Óli Björn Kára­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segir Svan­dísi Svavars­dóttur, for­mann Vinstri grænna og inn­viða­ráð­herra, vera að mis­skilja eigin stöðu og flokks síns í sam­starfi við Fram­sóknar- og Sjálf­stæðis­flokkinn.

Hann segir að Vinstri grænum hafi ekki verið af­hent ein­hliða neitunar­vald í ríkis­stjórn né sé heimild til þing­rofs í höndum Svan­dísar „þótt hún hafi stigið fram og boðað til kosninga áður en kjör­tíma­bilinu er lokið.“

„Það þarf ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut. Vinstri grænir undir for­ystu eins reyndasta og, að því er ég hélt, eins klókasta stjórn­mála­manns sam­tímans hafa í raun bundið enda á stjórnar­sam­starfið. Ég efast ekki um að Vinstri grænir trúi því og treysti að sam­starfs­flokkarnir í ríkis­stjórn láti það yfir sig ganga að minnsti flokkurinn taki þing­rofs­heimildina af for­sætis­ráð­herra og setji sam­ráð­herrum sínum stólinn fyrir dyrnar í mikil­vægum málum,“ skrifar Óli Björn í Morgunblaðið.

Um tvö hundruð manna lands­fundur Vinstri grænna sam­þykkti á­lyktun um að ríkis­stjórnar­sam­starfið væri að líða undir lok og boða eigi til kosninga í vor.

„Nú er lang­lundar­geð mitt endan­lega þrotið. Fram­ganga Vinstri grænna er með þeim hætti að úti­lokað er að rétt­læta sam­starf við þá í ríkis­stjórn. Þegar þá­verandi mat­væla­ráð­herra og nú­verandi for­maður Vinstri grænna kom í veg fyrir hval­veiðar sumarið 2023 voru margir kjós­endur Sjálf­stæðis­flokksins ó­sáttir við að halda sam­starfinu við VG á­fram,“ segir Óli Björn.

„Þessi skoðun átti sér hljóm­grunn í þing­flokki Sjálf­stæðis­flokksins en ljóst var að á­kvörðun mat­væla­ráð­herra gekk gegn lögum, eins og um­boðs­maður Al­þingis komst að. Ég hélt því fram í blaða­grein í júlí að mat­væla­ráð­herra hefði kastað blautri tusku í and­lit allra þing­manna sam­starfs­flokka og það væri pólitískur barna­skapur að halda að slíkt hefði ekki á­hrif á sam­starfið. Van­traust mitt í garð Vinstri grænna vegna þessa hafði mikil á­hrif á þá á­kvörðun mína að segja af mér sem þing­flokks­for­maður fyrir rúmu ári,“ skrifar Óli Björn.

Hann segir að þegar þing­flokks­for­maður stærsta stjórnar­flokksins treystir ekki ráð­herrum sam­starfs­flokks getur hann illa rækt skyldur sínar.

„Ég verð að viður­kenna að það voru mis­tök af minni hálfu að hafa ekki gengið lengra. Þegar jafn frek­lega er gengið gegn stjórnar­skrár­vörðum at­vinnu­réttindum og góðri stjórn­sýslu er erfitt fyrir þá, sem berjast fyrir at­vinnu­frelsi, að rétt­læta sam­starf.“

Dýrkeypt sáttfýsi

Óli Björn segist hafa stutt ríkis­stjórnar­sam­starfið heils­hugar árið 2017 þegar á­kveðið var að Sjálf­stæðis­flokkurinn tæki höndum saman við Fram­sóknar­flokk og Vinstri græn.

Hann var full­með­vitaður um að sam­steypu­stjórn ó­líkra flokka yrði ekki mynduð án sann­gjarnra mála­miðlana. Allir yrðu að gefa eitt­hvað eftir og stjórnar­flokkarnir þyrftu að „setja sitt mark á stefnuna og standa um leið vörð um grunn­stef hug­sjóna sinna, þrátt fyrir mála­miðlanir“.

„Þegar þing­flokkur Sjálf­stæðis­flokksins sam­þykkti að endur­nýja stjórnar­sam­starfið eftir kosningarnar 2021 var það gert í þeirri trú að byggt væri á trausti og trúnaði. Þótt hægt sé að gagn­rýna ríkis­stjórn þessara þriggja flokka fyrir ýmis­legt verður einnig að halda því til haga að ís­lensku þjóð­fé­lagi hefur tekist að sigla í gegnum þung efna­hags­leg á­föll vegna kórónu­veirufar­aldursins, stríðs­á­taka í Evrópu og elds­um­brota við Grinda­vík.“

Óli Björn segir nú að sátt­fýsi Sjálf­stæðis­manna hefði því verið meiri en efni hafa staðið til út frá þing­styrk.

„Þessi sátt­fýsi hefur reynst Sjálf­stæðis­flokknum dýr­keypt, þrátt fyrir aug­ljósan árangur í efna­hags­málum. Kaldar kveðjur. Um liðna helgi komu innan við 200 fé­lagar í Vinstri grænum saman til lands­fundar. Fyrir utan að kjósa Svan­dísi Svavars­dóttur sem nýjan for­mann voru sam­starfs­flokkunum og þá einkum Sjálf­stæðis­flokknum sendar kaldar kveðjur í á­lyktunum. Hægri­öflin (Sjálf­stæðis­flokkurinn) voru sögð þjóna sér­hags­munum en ekki al­manna­hags­munum og ala á út­lendinga­and­úð.“

„Gömul úr­elt slag­orð um auð­stéttina og fjár­magns­öflin fengu inni í á­lyktunum fundarins. Þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins eru sakaðir um undir­róður vegna frum­varps um að lækka fram­lög ríkisins til stjórn­mála­flokka. Í á­lyktun um ríkis­stjórnar­sam­starfið segir orð­rétt: „Til að hægt sé að halda ríkis­stjórnar­sam­starfinu á­fram telur lands­fundurinn að takast verði á við þau knýjandi verk­efni sem við blasa á fé­lags­legum grunni. Jafn­framt telur fundurinn að ganga verði til kosninga með vorinu.“ Sem sagt: Ríkis­stjórnin getur að­eins haldið á­fram á for­sendum minnsta og veikasta stjórnar­flokksins. Slík ríkis­stjórn nær aldrei árangri enda búin að missa erindi sitt. Það eina sem hægt er að segja er ein­falt og skýrt: Nei, takk,“ skrifar Óli að lokum.