Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Svandísi Svavarsdóttur, formann Vinstri grænna og innviðaráðherra, vera að misskilja eigin stöðu og flokks síns í samstarfi við Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkinn.
Hann segir að Vinstri grænum hafi ekki verið afhent einhliða neitunarvald í ríkisstjórn né sé heimild til þingrofs í höndum Svandísar „þótt hún hafi stigið fram og boðað til kosninga áður en kjörtímabilinu er lokið.“
„Það þarf ekki að fara eins og köttur í kringum heitan graut. Vinstri grænir undir forystu eins reyndasta og, að því er ég hélt, eins klókasta stjórnmálamanns samtímans hafa í raun bundið enda á stjórnarsamstarfið. Ég efast ekki um að Vinstri grænir trúi því og treysti að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn láti það yfir sig ganga að minnsti flokkurinn taki þingrofsheimildina af forsætisráðherra og setji samráðherrum sínum stólinn fyrir dyrnar í mikilvægum málum,“ skrifar Óli Björn í Morgunblaðið.
Um tvö hundruð manna landsfundur Vinstri grænna samþykkti ályktun um að ríkisstjórnarsamstarfið væri að líða undir lok og boða eigi til kosninga í vor.
„Nú er langlundargeð mitt endanlega þrotið. Framganga Vinstri grænna er með þeim hætti að útilokað er að réttlæta samstarf við þá í ríkisstjórn. Þegar þáverandi matvælaráðherra og núverandi formaður Vinstri grænna kom í veg fyrir hvalveiðar sumarið 2023 voru margir kjósendur Sjálfstæðisflokksins ósáttir við að halda samstarfinu við VG áfram,“ segir Óli Björn.
„Þessi skoðun átti sér hljómgrunn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins en ljóst var að ákvörðun matvælaráðherra gekk gegn lögum, eins og umboðsmaður Alþingis komst að. Ég hélt því fram í blaðagrein í júlí að matvælaráðherra hefði kastað blautri tusku í andlit allra þingmanna samstarfsflokka og það væri pólitískur barnaskapur að halda að slíkt hefði ekki áhrif á samstarfið. Vantraust mitt í garð Vinstri grænna vegna þessa hafði mikil áhrif á þá ákvörðun mína að segja af mér sem þingflokksformaður fyrir rúmu ári,“ skrifar Óli Björn.
Hann segir að þegar þingflokksformaður stærsta stjórnarflokksins treystir ekki ráðherrum samstarfsflokks getur hann illa rækt skyldur sínar.
„Ég verð að viðurkenna að það voru mistök af minni hálfu að hafa ekki gengið lengra. Þegar jafn freklega er gengið gegn stjórnarskrárvörðum atvinnuréttindum og góðri stjórnsýslu er erfitt fyrir þá, sem berjast fyrir atvinnufrelsi, að réttlæta samstarf.“
Dýrkeypt sáttfýsi
Óli Björn segist hafa stutt ríkisstjórnarsamstarfið heilshugar árið 2017 þegar ákveðið var að Sjálfstæðisflokkurinn tæki höndum saman við Framsóknarflokk og Vinstri græn.
Hann var fullmeðvitaður um að samsteypustjórn ólíkra flokka yrði ekki mynduð án sanngjarnra málamiðlana. Allir yrðu að gefa eitthvað eftir og stjórnarflokkarnir þyrftu að „setja sitt mark á stefnuna og standa um leið vörð um grunnstef hugsjóna sinna, þrátt fyrir málamiðlanir“.
„Þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins samþykkti að endurnýja stjórnarsamstarfið eftir kosningarnar 2021 var það gert í þeirri trú að byggt væri á trausti og trúnaði. Þótt hægt sé að gagnrýna ríkisstjórn þessara þriggja flokka fyrir ýmislegt verður einnig að halda því til haga að íslensku þjóðfélagi hefur tekist að sigla í gegnum þung efnahagsleg áföll vegna kórónuveirufaraldursins, stríðsátaka í Evrópu og eldsumbrota við Grindavík.“
Óli Björn segir nú að sáttfýsi Sjálfstæðismanna hefði því verið meiri en efni hafa staðið til út frá þingstyrk.
„Þessi sáttfýsi hefur reynst Sjálfstæðisflokknum dýrkeypt, þrátt fyrir augljósan árangur í efnahagsmálum. Kaldar kveðjur. Um liðna helgi komu innan við 200 félagar í Vinstri grænum saman til landsfundar. Fyrir utan að kjósa Svandísi Svavarsdóttur sem nýjan formann voru samstarfsflokkunum og þá einkum Sjálfstæðisflokknum sendar kaldar kveðjur í ályktunum. Hægriöflin (Sjálfstæðisflokkurinn) voru sögð þjóna sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum og ala á útlendingaandúð.“
„Gömul úrelt slagorð um auðstéttina og fjármagnsöflin fengu inni í ályktunum fundarins. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru sakaðir um undirróður vegna frumvarps um að lækka framlög ríkisins til stjórnmálaflokka. Í ályktun um ríkisstjórnarsamstarfið segir orðrétt: „Til að hægt sé að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram telur landsfundurinn að takast verði á við þau knýjandi verkefni sem við blasa á félagslegum grunni. Jafnframt telur fundurinn að ganga verði til kosninga með vorinu.“ Sem sagt: Ríkisstjórnin getur aðeins haldið áfram á forsendum minnsta og veikasta stjórnarflokksins. Slík ríkisstjórn nær aldrei árangri enda búin að missa erindi sitt. Það eina sem hægt er að segja er einfalt og skýrt: Nei, takk,“ skrifar Óli að lokum.