Hið árlega rit, Fjármál og ávöxtun, þar sem birt er raunávöxtun allra innlánsreikninga og verðbréfasjóða á Íslandi, er komið út; sjötta árið í röð. Samtök sparifjáreigenda halda fund á Reykjavik Natura kl. 8:15 í fyrramálið í tilefni af útkomu blaðsins þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri verður með erindi.
Nú er það rautt, er helsta niðurstaða blaðsins um raunávöxtun innlánsreikninga bankanna, verðbréfasjóða og lífeyrissjóða landsins. Meira að segja mjög rautt, segir Jón G. Hauksson, útgefandi og ritstjóri blaðsins, en raunávöxtunin var verulega neikvæð. Sem dæmi þá lækkaði Úrvalsvísitalan um -26,5% á síðasta ári eftir búsældarleg ár á undan.

Það er fyrst og fremst yfir 9% verðbólga á síðasta ári sem ræður mestu um rauða litinn sem og órói á mörkuðum í kjölfar stríðsins í Úkraínu.
Í blaðinu má finna raunávöxtun helstu séreignasjóða lífeyrissjóðanna á síðasta ári; eignir og skuldir heimila í landinu; þróun fasteignaverðs og ýmsar aðrar athyglisverðar hagstærðir.
Sú nýjung er í blaðinu að þessu sinni að birt er yfirlit yfir raunávöxtun nokkurra af helstu innlánsreikningum Den Norske Bank og Den Danske bank „og viti menn; þar sjá menn líka rautt“.