Auðug ríki kaupa nú í auknum mæli upp gríðastór svæði í vanþróuðum þriðja-heims ríkjum með það að markmiði að byggja upp ræktarland til matvælaframleiðslu.
Þessi nútíma nýlendustefna kemur mjög illa niður á þeim fátæku ríkjum sem með þessu missa bestu ræktarlönd sín til annara þjóða. Ríkar þjóðir byggja með þessu upp matvælaforða sinn á kostnað þeirra fáttæku.
Breska blaðið Guardian hefur það eftir Jacques Diouf, yfirmanni matvælastofnunnar Sameinuðu Þjóðanna, að þetta sé vaxandi vandamál. Fátæk lönd framleiði nú matinn ofan í ríkari þjóðir á meðan þegnar þeirra svelti.
Matvælaverð hefur farið síhækkandi í heiminum og er það ein helsta ástæða þessara aðgerða.
Í síðustu viku kynnti Suður-Kóreska stórfyrirtækið Daewoo Logistics áætlun sína um að kaupa nýtingarrétt á um milljón hekturum landsvæðis til 99 ára á Madagaskar eyju í Afríku. Markmiðið er að rækta þar um 5 milljón tonn af korni fyrir árið 2023 og einnig framleiða pálma olíu á um 120.000 hektara landi. Verkamenn frá Suður-Afríku munu aðallega starfa við framleiðsluna. Engar afurðir munu þó koma í hlut íbúa Madagaskar því öll framleiðslan verður flutt beina leið til Suður-Kóreu.
Ríkisstjórn Madagaskar hefur þó farið fram á að fyrirhugaðar aðgerðir gangist undir umhverfismat enda gríðarmikið landsvæði sem liggur undir.
Arabaríki hafa einnig verið dugleg að kaupa upp ræktunarland fátækari ríkja. Saudi Binladin Group hyggur til að mynda á að kaupa land í Indónesíu til hrísgrjónaræktunar. Einnig hafa stór landsvæði í Súdan, Kasakstan, Laos og Kambódíu verið keypt undir svipuð verkefni.