Axel Óskarsson, veitingamaður í Kaffivagninum á Grandagarði, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verið sé að undirbúa nýrri og flottari Kaffivagn sem muni koma til með að opna eins snemma í maí og hægt er.
Hann segir að tilgangur breytinganna sé að nútímavæða Kaffivagninn og auka aðgengi fyrir viðskiptavini en þó að halda við gamla stíl staðarins.
„Þetta byrjaði sem lítið sætt verkefni þar sem við ætluðum aðeins að taka til í eldhúsinu og salnum en svo breyttist það í mun stærra verkefni þar sem við erum að endurgera allt húsið. Nú er allt á fleygiferð og við ætlum að reyna að klára að steypa plöturnar fyrir páska.“

Axel segir að eftir páska verði svo strax farið í uppbyggingu en bætir þó við að Kaffivagninn verði í sömu stærð og áður. „Það verður hins vegar allt nýtt inni í honum en þó í gamla stílnum. Við verðum til dæmis með nýja stóla, ný borð og nýtt þjónustusvæði.“

Hann segir að það sé einnig verið að bæta alla aðstöðu fyrir fatlaða og verður til að mynda rampur byggður fyrir utan staðinn til að auka aðgengi ásamt nýju salerni fyrir fatlaða.
„Við munum svo halda í Kaffivagninn og erum í raun ekkert að fara að breyta honum. Það er fólkið sem kemur á Kaffivagninn sem gerir hann að þeim stað sem hann er í dag og við munum halda því áfram.“